Þorvaldur Þorsteinsson - Myndlistarmaður og rithöfundur

Líf einstaklinga, hvort sem um er að ræða einkalíf eða opinbert líf, eru órjúfanlegur hluti af samtímalistinni. Frá byrjun tíunda áratugarins hefur Þorvaldur Þorsteinsson, myndlistarmaður og rithöfundur, velt fyrir sér hlutverki listamannsins, listhugtakinu og mörkum listar og veruleika. Með skýrri sýn sinni gerir hann listina og sköpunarkraftinn að sjálfsögðum þætti lífs okkar, heild þar sem við erum öll þátttakendur.


Þorvaldur Þorsteinsson (7. nóvember 1960 á Akureyri23. febrúar 2013 í Antwerpen) var íslenskur myndlistarmaður, rithöfundur og leikskáld. Hann er þekktastur fyrir barnaleikritið Skilaboðaskjóðan (1993), fjórar bækur um Blíðfinn (1998-2004) og leikritið And Björk of Course (2002) sem Lárus Ýmir Óskarsson og Benedikt Erlingsson gerðu að samnefndri kvikmynd árið 2004. Hann var kjörinn forseti Bandalags íslenskra listamanna árið 2004 - 2006.



Æviágrip

Foreldrar Þorvaldar voru Þorsteinn Gunnar Williamsson húsasmíðameistari og Soffía Þorvaldsdóttir, húsmóðir og bíóstarfsmaður Systkini Þorvaldar eru: Jóna Lísa Þorsteinsdóttir, kennari og prestur, Gunnar Þorsteinsson, félagssálfræðingur og rithöfundur, Margrét Þorsteinsdóttir hjúkrunardeildarstjóri.

Fyrri eiginkona Þorvaldar var Ingibjörg Björnsdóttir leikkona. Dóttir Ingibjargar og uppeldisdóttir Þorvaldar er Sigrún Jónsdóttir sonur hennar er Stígur,og dóttir Sigrúnar er Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir.

Eiginkona Þorvaldar er Helena Jónsdóttir, danshöfundur og kvikmyndagerðarkona. Sonur hennar og uppeldissonur Þorvaldar er Dagur Benedikt Reynisson. Þorvaldur ólst upp á Akureyri. Hann nam við Menntaskólann á Akureyri og í kjölfar þess við Myndlistaskólann á Akureyri 1977-1981. Hann stundaði nám í íslensku, bókmenntum og heimspeki við Háskóla Íslands, lauk prófi frá nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og meistaraprófi frá Jan Van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1989. Þorvaldur starfaði sem myndlistarmaður og rithöfundur og hlaut fjölmargar viðurkenningar víða um heim fyrir listsköpun sína. Hann hélt yfir 40 einkasýningar á Íslandi og í Evrópu auk þátttöku í tugum alþjóðlegra myndlistarviðburða. Sýning á nýjum verkum Þorvaldar í Listasafni Íslands var í undirbúningi þegar hann lést og sömuleiðis bækur um fjölbreyttan listferil hans. Fjölhæfni Þorvaldar í myndlistinni var mikil og breiddin í ritverkum hans var ekki minni. Hann skrifaði bækur, leikrit og einþáttunga, ritverk í fullri lengd eða örverk, til útgáfu, fyrir leiksvið, útvarp eða sjónvarp og jöfnum höndum fyrir börn og fullorðna. Barnabækur hans nutu sérstakra vinsælda og sögurnar um Blíðfinn voru þýddar á mörgum tungumálum. Á meðal sviðsverka Þorvaldar er Skilaboðaskjóðan og leikritið And Björk of course sem sett var upp í Borgarleikhúsinu og sýnt hefur verið víða í Evrópu. Fyrir það verk hlaut hann Grímuverðlaunin sem besta leikskáld ársins 2002 og var tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Þorvaldur stofnaði ásamt eiginkonu sinni framleiðslu- og fræðslumiðstöðina MPP ehf. utan um listsköpun þeirra og tengd verkefni hérlendis og erlendis. Á meðal þeirra var fjölbreytt fyrirlestra- og námskeiðahald fyrir einstaklinga og fyrirtæki undir merkjum kennsla.is, hugmyndasmíð, textagerð, lestur inn á ljósvakaauglýsingar og fleira sem Þorvaldur tók að sér.