Nichole Leigh Mosty

Nichole Leigh Mosty (19. október 1972) er forstöðumaður Fjölmenningarseturs og fyrrum þingkona Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Nichole fæddist í smábænum Three Rivers í Michigan, Bandaríkjunum. Hún kynntist tilvonandi eiginmanni sínum, Garðari Kenneth Mosty Gunnarssyni í Boston og flutti ásamt honum til Íslands árið 1999.

Eftir komu til Íslands starfaði Nichole við ræstingar og á leikskóla en hóf síðan nám í leikskólakennarafræðum við KHÍ sem hún lauk með B.Ed.-prófi árið 2007. Árið 2013 hlaut hún M.Ed. gráðu í náms- og kennslufræði með kjörsviðið mál og læsi frá HÍ. Nichole var leikskólastjóri við leikskólann Ösp í Fellahverfinu í Breiðholti, Reykjavík, 2011-2016, verkefnisstjóri hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts frá 2018-2021.

Nichole tók sæti á lista Bjartrar framtíðar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014. Hún var skipuð formaður hverfisráðs Breiðholts eftir kosningarnar og varamaður í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur, sem hún gegndi til 2016. Í Alþingiskosningunum 2016 tók Nichole efsta sæti á framboðslista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Nichole tók sæti á þingi fyrir flokkinn að kosningum loknum.[1][2]. Hún hefur látið til sín taka í innflytjendamálum á Íslandi og árið 2021 var hún skipuð í embætti forstöðumanns Fjölmenningarseturs.[3]

Tilvísanir breyta

  1. „Nichole Leigh Mosty“. Björt framtíð í Reykjavík. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. júní 2017. Sótt 3. nóv, 2016.
  2. Nichole Leigh Mosty, Alþingisvefurinn. Skoðað 7.7.2017.
  3. Mbl.is, „Nichole nýr forstöðumaður Fjölmenningarseturs“ (skoðað 5. febrúar 2021)