Nykur
Nykur er þjóðsagnavera sem líkist mjög hesti, og er oftast steingrár eða apalgrár að lit. Aðaleinkenni nykursins eru þau að hófarnir snúa aftur og hófskeggin fram, öfugt við það sem er á eðlilegum hesti. Nykrar eiga sér hliðstæðu í þjóðtrú nágrannalanda, t.d. Noregs og Orkneyja.
Hin ýmsu nöfn nykursins
breytaNykur en nefndur ýmsum nöfnum á íslensku s.s nennir, nóni, vatnaskratti eða kumbur. Hann er einnig stundum nefndur vatnahestur, þó það sé oftast haft um flóðhest eða venjulegan hest sem er þeim eiginleikum búinn að vera traustur að vaða straumhörð vatnsföll.
Þjóðtrúin
breytaNykur er samkvæmt þjóðtrúnni bæði að finna í ám og stöðuvötnum og jafnvel sjó. Þegar sprungur koma í ísa á stöðuvötnum að vetri til verða stundum dunur miklar, þá er sagt að nykurinn hneggi. Nykurinn reynir gjarnan að tæla menn á bak sér. Þeir sem fara á bak sitja þar fastir með einhverjum hætti en nykurinn hleypur óðar að vatninu þar sem hann á sér óðal og steypir sér á kaf og drekkir þeim sem á honum situr. Hann þolir ekki að heyra nafn sitt nefnt, en heyri hann það tekur hann viðbragð og hleypur í vatnið. Það hefur borið við að hann hafi fyljað merar af hestakyni. Það einkennir alla þá hesta sem eru undan nykri að þeir leggjast niður ef þeim er riðið eða þeir bera bagga yfir vatnsfall sem vætir kvið þeirra. Fjölmörg örnefni tengd nykrinum eru til um land allt, s.s. Nykurtjörn, Nykurvatn, Nykurpyttur og mörg fleiri.
Biblían
breytaÍ biblíu 20. aldar, nánar til tekið í Job 40.15-24 í Gamla testamentinu, er talað um nykur. Það er einhverskonar tilraun til að þýða hið hebreska orð, behemot, sem notað er í ýmsum erlendum þýðingum. Það hefur verið túlkað sem hinar ýmsu skepnur meðal fræðinga, allt frá flóðhesti, krókódíl, vatnavísundi og fornfíli, og sumir hafa jafnvel viljað meina að behemot hafi verið risaeðla.
|
Heimildir
breyta- Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I.
- Sigfús Sigfússon. Íslenskar þjóðsögur og sagnir IV. Þjóðsaga, Reykjavík 1982
Tenglar
breyta- „Hvað getir þið sagt mér um nykur?“. Vísindavefurinn.
- Nykur fældur; smágrein í Lesbók Morgunblaðsins 1961
- Nykur í Miðfellsvatni; hluti af grein í Lesbók Morgunblaðsins 1959
- Nykur í Tjörninni; smágrein í Lesbók Morgunblaðsins 1957
erlendir
- Nykur í Orkneyjum Geymt 9 maí 2023 í Wayback Machine.