Nýja fréttastofan (NFS) var íslensk fréttasjónvarpsstöð sem hóf göngu sína að morgni 18. nóvember árið 2005 [1] og sendi út fréttir og fréttatengt efni stærstan hluta sólarhringsins. Fréttastofa NFS tók við af fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Það voru 365 ljósvakamiðlar sem ráku NFS og hún var send út á Digital Íslandi og náðist því á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en einnig á internetinu á Vísir.is.

Merki stöðvarinnar

Róbert Marshall var forstöðumaður NFS en Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóri. Varafréttastjórar voru Þór Jónsson og Þórir Guðmundsson en tæknistjóri Ingi Ragnar Ingason. Í raun var sjálf fréttastofan tvískipt: Annars vegar kvöldfréttateymið sem samanstóð af þeim fréttamönnum sem áður höfðu starfað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, hins vegar fréttaveitan svonefnda. Á fréttaveitunni starfaði hópur ungs fólks sem hafði mismikla fjölmiðlareynslu að baki. Hagkvæmnissjónarmið réðu því að þau áttu að vera allt í senn: tökumenn, fréttamenn og klipparar. Fréttatímar NFS - að kvöldfréttunum undanskildum - voru verk fréttaveitunnar.

Stöðin hætti útsendingum á eigin rás klukkan 20:00 föstudaginn þann 22. september 2006, vegna þessa var 20 starfsmönnum sagt upp.[2] Nokkrum dögum áður hafði Róbert Marshall skrifað opið bréf til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs og eins af aðaleigendum 365, með yfirskriftinni "Kæri Jón". Þar biðlaði hann til Jóns Ásgeirs að beita sér fyrir því að NFS yrði tryggður áfram rekstargrundvöllur. Allt kom fyrir ekki og Róbert var á meðal þeirra sem tóku pokann sinn þennan föstudag.

Fréttir voru um stutt skeið sendar áfram út undir merkjum NFS en um haustið 2006 var ákveðið að fréttastofan sendi á ný undir merkjunum: "Fréttastofa Stöðvar 2".

Heimildir

breyta