Gregoríska tímatalið

Alþjóðlega viðurkennt borgaralegt dagatal
(Endurbeint frá Nýi stíll)

Gregoríska tímatalið (einnig kallað nýi stíll eða gregoríanska tímatalið) er tímatal sem innleitt var í katólskum löndum árið 1582 og kennt er við Gregoríus 13. páfa. Tímatalið tók við af rómverska tímatalinu, sem oftast er kallað júlíska tímatalið eða „gamli stíll“ og kennt við Júlíus Sesar, en mikil skekkja var orðin í því.

Kosningavaka eftir William Hogarth. Neðarlega hægra megin sést svart blað með áletruninni „Give us our eleven days“ („Skiliði ellefu dögunum“) gegn upptöku gregoríska tímatalsins sem gerðist 1752.

Leiðréttingin var miðuð við vorjafndægur og gekk út á það að felldir voru niður 10 dagar árið sem það var tekið í notkun og kom þá 15. október í stað 5. október. Eingöngu fjórða hvert ár varð hlaupár og það aldamótaár sem talan 400 gengur upp í, í stað allra aldamótaára áður. Þannig var 1900 ekki hlaupár, en 2000 var það. Bæði hefðu verið hlaupár í gamla stíl.

Í löndum annara kirkjudeilda tók sums staðar upp undir tvær aldir að koma breytingunni á og flestar deildir austurkirkjunnar hafa ekki enn tekið það upp. Því hefur til að mynda jóladagur þeirra á 20. öld verið þann 6. janúar vegna skekkjunnar sem er í júlíanska tímatalinu, en ekki 25. desember eins og í því gregoríska.

Gregoríska tímatalið var tekið upp á Íslandi árið 1700 ásamt flestum ríkjum mótmælenda í Evrópu. Var skekkjan þá orðin 11 dagar frá júlíska tímatalinu, en hafði verið 10 dagar þegar tímatalið var fyrst tekið í notkun árið 1582 og voru þessir 11 dagar felldir niður úr árinu, þannig að 28. nóvember kom í stað 17. nóvember.

Heimildir

breyta
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.