Muhammad Yunus

Bangladesskur hagfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi

Muhammad Yunus (f. 28. júní 1940) er bangladesskur hagfræðingur og bankamaður sem er stofnandi Grameen-bankans, örlánabanka sem reynir að sporna við fátækt með því að veita fátækum smálán án ábyrgðar. Yunus og Grameen-bankinn hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2006 fyrir baráttu sína gegn fátækt.[1]

Muhammad Yunus
মুহাম্মদ ইউনূস
Muhammad Yunus árið 2024.
Aðalráðgjafi Bangladess
Núverandi
Tók við embætti
8. ágúst 2024
ForsetiMohammed Shahabuddin
ForveriSheikh Hasina Wazed (forsætisráðherra)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. júní 1940 (1940-06-28) (84 ára)
Chittagong, breska Indlandi (nú Bangladess)
MakiVera Forostenko (g. 1970; sk. 1979)​
Afrozi Yunus ​(g. 1983)
Börn2
HáskóliHáskólinn í Dakka (BA, MA)
Vanderbilt-háskóli (PhD)
StarfHagfræðingur, bankamaður
Verðlaun Sjálfstæðisverðlaunin (1987)
Aga Khan-verðlaunin í húshönnun (1989)
Alþjóðamatarverðlaunin (1994)
Pfeffer-friðarverðlaunin (1994)
Gandhi-friðarverðlaunin (2000)
Volvo-umhverfisverðlaunin (2003)
Friðarverðlaun Nóbels (2006)
Frelsisorða Bandaríkjaforseta (2009)
Gullorða Bandaríkjaþings (2010)
Undirskrift
Vefsíðamuhammadyunus.org

Æviágrip

breyta

Muhammad Yunus fæddist í borginni Chittagong árið 1940 og var af efnuðum ættum. Faðir hans var gullsmiður en Yunus hefur sagt að móðir hans, Sofia Khatun, hafi haft mest áhrif á sig þar sem hún hafi verið vön að hjálpa fátæklingum sem bönkuðu upp á hjá fjölskyldunni. Yunus hlaut Fulbright-styrk til að nema hagfræði í Bandaríkjunum en sneri aftur til Chittagong að loknu námi og gerðist yfirmaður hagfræðideildarinnar í háskóla borgarinnar.[2]

Þegar hungursneyð reið yfir Bangladess árið 1974 fékk Yunus þá hugmynd að veita 42 fátækum Bangladessum smálán upp á andvirði tæpra 1.900 kr. sem höfuðstól svo þau gætu átt efni á nauðsynjavörum fyrir atvinnu sína án þess að þurfa að leita til okurlánara.[1] Þessi lánastarfsemi varð grundvöllurinn að Grameen-bankanum, sem Yunus stofnaði formlega árið 1983. Sem bankastjóri Grameen-bankans var Yunus vanur að heimsækja útibú bankans reglulega og taka við mánaðarlegum skýrslum af 234 útibússtjórum hans.[3] Með bankanum sóttist Yunus eftir því að vera fátækum innan handar með því að hafa lánin lág, með því að halda pappírsvinnu í lágmarki og með því að leyfa ólæsu fólki að taka lán.[4]

Starfsemi Grameen-bankans jókst ár eftir ári og bankinn tók þátt í velferðarverkefnum á borð við byggingu þorpssímstöðva og heilsugæslustöðva. Árið 2006 unnu Yunus og Grameen-bankinn til friðarverðlauna Nóbels fyrir baráttu sína gegn fátækt. Ole Danbolt Mjøs, formaður Nóbelsnefndarinnar, sagði við verðlaunaveitinguna að Yunus væri mikill brautryðjandi og hefði „tekist að gera hugsjón sína að veruleika“.[1]

Árið 2007 stofnaði her Bangladess bráðabirgðastjórn yfir landinu vegna deilna helstu stjórnmálaflokka landsins, Awami-bandalagsins og Þjóðernisflokksins. Yunus afþakkaði boð hersins um að gerast leiðtogi bráðabirgðastjórnarinnar en studdi þó spillingarherferð hennar, þar sem fyrrum forsætisráðherrarnir Sheikh Hasina Wazed og Khaleda Zia, leiðtogar flokkanna tveggja, voru báðar handteknar. Yunus tilkynnti að hann hygðist stofna eigin stjórnmálaflokk undir heitinu „Vald fólksins“ til að taka þátt í yfirvofandi þingkosningum, en hætti við áætlanir sínar eftir að hafa rætt við bráðabirgðastjórnina.[2]

Eftir að kosningarnar voru haldnar árið 2008 komst Awami-bandalagið aftur til valda og Sheikh Hasina varð forsætisráðherra á ný. Árið 2010 sakaði Hasina Yunus um að „sjúga fé úr fólkinu sem hann [hefði] lánað“ og lét reka hann úr embætti bankastjóra Grameen-bankans með vísan til þess að hann væri kominn á eftirlaunaaldur og að ákvörðun Grameen-banka um að æviráða hann sem yfirmann árið 1999 stæðist ekki lög. Dómstóll á millistigi í Dakka komst að þeirri niðurstöðu að Yunus yrði að víkja sem yfirmaður Grameen-bankans. Yunus áfrýjaði dómnum til hæstaréttar, en fyrri dómurinn var staðfestur og honum gert að víkja sem yfirmaður bankans sem hann hafði stofnað.[5]

Þann 6. ágúst árið 2024 var Yunus útnefndur til að leiða bráðabirgðastjórn Bangladess eftir að forsætisráðherrann Sheikh Hasina hrökklaðist frá völdum í kjölfar blóðugra fjöldamótmæla.[6] Yunus þáði boðið og tók við embætti ríkisstjórnarleiðtoga með titlinum aðalráðgjafi.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „„Fátækt á heima á safni". Morgunblaðið. 14. október 2006. Sótt 7. janúar 2020.
  2. 2,0 2,1 Karl Blöndal (13. mars 2011). „Nóbelshafi í stríði við stjórnvöld“. SunnudagsMogginn. Sótt 7. janúar 2020.
  3. „Banki fátækra í Bangladesh“. Bankablaðið. 1. desember 1987. Sótt 7. janúar 2020.
  4. „Smálánatrúboðinn Yunus“. Morgunblaðið. 27. júlí 2006. Sótt 7. janúar 2020.
  5. Björn Teitsson (4. mars 2011). „Yunus rekinn frá eigin banka“. Dagblaðið Vísir. Sótt 7. janúar 2020.
  6. Ástrós Signýjardóttir (6. ágúst 2024). „Nóbelsverðlaunahafi leiðir bráðabirgðastjórn í Bangladess“. RÚV. Sótt 6. ágúst 2024.
  7. „Nóbelsverðlaunahafi leiðir Bangladess“. mbl.is. 7. ágúst 2024. Sótt 9. ágúst 2024.