Merkigil er eyðibýli í Austurdal í Skagafirði og var nyrsti bærinn í dalnum austanverðum. Jörðin þótti góð bújörð en hún er umkringd djúpum og hrikalegum gljúfrum og háum fjöllum og aðdrættir því afar erfiðir.

Merkigil (gilið); sér yfir í Bústaði handan Austari-Jökulsár.

Vestan við land Merkigils er gljúfur Austari-Jökulsár en norðan við það er Merkigil, mikið klettagil sem skilur í sundur Kjálka og Austurdal. Yfir það var jafnan farið þegar fara þurfti í kaupstað eða út á Kjálka og í Blönduhlíð. Vegna þess hve þröngt einstigið er sem liggur fyrir framan klettasnös eina í gilinu var ekki hægt að fara þar um með fyrirferðarmiklar klyfjar og var því ull og annað slíkt flutt yfir Nýjabæjarfjall og niður í Eyjafjörð og síðan til Akureyrar.

Monikubrú á Jökulsá.

Á Merkigili bjuggu margir góðu búi fyrr á öldum en þekktasti bóndi þar er ekkjan Monika Helgadóttir, sem bjó þar fyrst með Jóhannesi manni sínum frá 1926 en þegar hann lést á besta aldri 1947 frá átta ungum börnum, því yngsta nokkurra vikna, hélt Monika áfram búi þar með rausn og byggði meðal annars steinsteypt íbúðarhús á bænum 1949. Var allt efni í húsið flutt yfir Merkigilið á hestum. Monika varð þjóðkunn þegar Guðmundur G. Hagalín skrifaði um hana bókina Konan í dalnum og dæturnar sjö árið 1954.

Monika barðist lengi fyrir því að fá brú á Austari-Jökulsá yfir í Merkigil og tókst það loksins. Er brúin oft kennd við hana og kölluð Monikubrú.

Þegar öll börn Moniku voru flutt að heiman árið 1972 og hún ein eftir gerði hún samning við Helga Jónsson um að fá jörðina ef hann hjálpaði henni með búskap og að lifa á Merkigili en hann var þar áfram allmörg ár. Hún lést árið 1988. Helgi varð síðasti bóndi á Merkigili því hann hrapaði til bana í Merkigili árið 1997. Hann hafði þá í mörg ár verið eina sóknarbarnið í Ábæjarsókn.

Heimildir

breyta
  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7