Menningarvernd er tilbrigði við hugverkarétt þar sem tilgangurinn er að búa til lagaleg skilyrði fyrir notkun verka sem hafa sérstakt menningarlegt gildi fyrir þjóð eða ríki. Einkenni menningarverndar eru að hún nær yfirleitt aðeins yfir tiltekinn flokk verka eða verk tiltekinna höfunda og hún er yfirleitt ótímabundin.

Menningarverndarákvæði koma fyrir í lögum sem fjalla um hugverkarétt í ýmsum löndum, til dæmis í íslenskum höfundalögum 53. grein þar sem fjallar um tímalengd sæmdarréttar. Slík menningarvernd kemur líka fyrir í dönskum höfundalögum 75. grein sem fjallar um framlengingu réttarins ef menningarlegir hagsmunir krefjast þess. Í nokkrum löndum hefur verið notast við domaine public payant-kerfi, ýmist fyrir öll verk í almenningi eða bara verk þeirra höfunda sem teljast hafa sérstaka menningarlega þýðingu. Yfirleitt felst í því krafa um að útgefandi semji um útgáfu verksins við tiltekna stofnun sem getur verið á vegum ríkisins eða samtaka rétthafa.

Menningarvernd getur líka verið útfærð með sérlögum. Lög um útgáfu fornrita frá 1941 eru dæmi um slík lög, en hæstiréttur Íslands dæmdi þau ógild 1944 á þeim forsendum að þau stönguðust á við prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Lög um menningararf og verndun fornminja, þar sem gerð eftirmynda eða afleiddra verka er takmörkuð, má líka skoða sem dæmi um menningarvernd.