Sæmdarréttur er hluti höfundaréttar í mörgum löndum. Sæmdarrétturinn er upprunninn í franskri og þýskri löggjöf á 19. öld og varð hluti af Bernarsáttmálanum við endurskoðun hans 1928. Sæmdarréttur leiðir af þeirri hugmynd að verk höfundar sé framlenging á persónu hans. Sæmdarrétturinn er þannig oftast persónubundinn (aðeins höfundurinn sjálfur getur verið málsaðili) og óframseljanlegur, öfugt við hinn meginhluta höfundaréttar, fjárhagslegu réttindin.

Þótt það sé misjafnt eftir löndum felur sæmdarréttur yfirleitt í sér eftirfarandi réttindi höfundar:

  • Rétt til nafngreiningar (droit de paternité)
  • Rétt til að verki sé ekki breytt eða sett í þannig samhengi að það skaði höfundarheiður hans (droit au respect de l'integrité de l'œuvre)
  • Rétt til að taka verk úr umferð (droit de repentir)
  • Rétt til að ráða frumbirtingu verks (droit de divulgation)

Þótt þessi réttindi séu varin með höfundalögum þá er í dómaframkvæmd reynt að vega þau og meta gagnvart öðrum réttindum, samningsskyldum og anda laganna. Oft þarf höfundur að sýna fram á mjög ríkar ástæður til að taka verk úr umferð eða stöðva útgáfu verks sem hann hefur áður samið um. Eins vega dómarar sæmdarrétt höfundar út frá tjáningarfrelsisákvæðum sem til dæmis fela í sér ríkan rétt til háðsádeilu með skopstælingu sem aftur getur hæglega skaðað heiður höfundar skopstælda verksins. Algengast er að dæmdar séu bætur fyrir brot á sæmdarrétti vegna ritstuldar þar sem höfundar er ekki getið með réttum hætti.

Ekki þarf að sýna fram á fjárhagslegt tjón þegar farið er fram á bætur fyrir brot á sæmdarrétti, líkt og þarf að gera þegar um brot gegn fjárhagslegum réttindum er að ræða.

Tenglar

breyta