Matteo Ricci
Matteo Ricci (6. október 1552 – 11. maí 1610) var ítalskur jesúítamunkur og einn af upphafsmönnum trúboðs jesúíta í Kína.
Ricci lærði stærðfræði, heimsfræði og stjörnufræði, auk guðfræði og heimspeki í Róm. Hann var sendur til Maká 1582 og lærði fljótt kínversku og kínverskt letur. Ásamt Michele Ruggieri ferðaðist hann um helstu borgir Guangdong. Þeir settust að í Zhaoqing þar sem Ricci gerði fyrsta heimskortið í evrópskum stíl á kínversku, Kunyu Wanguo Quantu „kort af landafjöld heimsins“, árið 1584. Talið er að þeir Ruggieri hafi þar líka samið kínversk-portúgalska orðabók sem hafði að geyma fyrsta umritunarkerfið úr kínversku letri á latínuletur.
Ricci var rekinn frá Zhaoqing og ferðaðist þá víðar um meginland Kína. Hann kom fyrst til Beijing árið 1598. Árið 1601 var honum boðin staða ráðgjafa við hirð Wanli keisara í Beijing. Hann varð því fyrsti Vesturlandabúinn sem fékk að koma inn í Forboðnu borgina. Hann fékk frjálsan aðgang en hitti aldrei keisarann sjálfan. Heimskortið hans var prentað á kostnað keisarans árið 1602 og hafði gríðarleg áhrif. Hann stofnaði líka fyrstu kaþólsku kirkjuna í Beijing, Xuanwumen-kirkju árið 1605. Ricci lést í Beijing árið 1610 og var jarðaður þar að beiðni Diego de Pantoja, en annars kváðu reglur um að allir útlendingar skyldu jarðaðir í Maká.