Margrét Jónsdóttir (skáld)

Margrét Jónsdóttir (20. ágúst 1893 - 9. desember 1971) var íslenskt skáld, kennari og ritstjóri barnablaðsins Æskunnar. Hið þekkta kvæði Ísland er land þitt var samið af Margréti.

Fjölskylda

breyta

Margrét fæddist að Árbæ í Holtum í Rangárvallasýslu. Foreldrar hennar voru Stefanía Jónsdóttir og Jón Gunnlaugur Sigurðsson sýsluskrifari í Rangárþingi og síðar bóndi að Hofgörðum á Snæfellsnesi.[1] Stefanía var einstæð móðir og starfaði sem ráðskona hjá Páli Briem sýslumanni en hafði þrátt fyrir fátækt gengið í Kvennaskólann að Ytri-Ey þar sem Elín Briem var skólastýra. Þegar Margrét var um tvítugt fluttust mæðgurnar til Reykjavíkur og bjuggu saman allt þar til Stefanía lést árið 1956.[2] Þegar Margrét var 66 ára gömul giftist hún Magnúsi Péturssyni kennara frá Akureyri en þau höfðu fyrst kynnst í kaupavinnu sem ungt fólk mörgum áratugum fyrr.[3]

Menntun og störf

breyta

Þegar Margrét var 12 ára gætti hún barna á heimili Einars Benediktssonar skálds.[3] Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík 1910-1912. Að loknu námi í Kvennaskólanum starfaði hún við heimiliskennslu í Borgarfirði og Gullbringusýslu auk þess sem hún vann við verslunar- og skrifstofustörf. Árið 1923 hélt hún til Danmerkur og vann þar við saumaskap og sótti kennaranámskeið. Hún var einn vetur í Björgvin í Noregi en snéri aftur til Íslands og settist í Kennaraskóla Íslands og lauk kennaraprófi árið 1926.

Hún kenndi við Barnaskólann í Reykjavík og síðar Austurbæjarskóla, en hætti kennslu vegna veikinda árið 1944 en vann lengi sem gæslukona á Þjóðminjasafninu. Hún starfaði mikið að félagsmálum, var m.a. í Góðtemplarareglunni og í Lestarfélagi kvenna og var ritstjóri barnablaðsins Æskunnar frá 1928-1942.[2] Blaðið varð útbreiddasta barnablað á Íslandi undir ritstjórn Margrétar.[3]

Margrét var iðin við ritstörf og eftir hana liggja fjöldi ljóðabóka en einnig þýðingar, barnabækur, smásögur og leikrit auk skrifa hennar í Æskuna. Þekktasta kvæði Margrétar er án efa Ísland er land þitt en það birtist fyrst í þjóðhátíðarblaði Morgunblaðsins 17. júní 1954.[4] Síðar samdi Magnús Þór Sigmundsson lag við texta Margrétar.[5][6][7]

Tilvísanir

breyta
  1. „Íslendingaþættir Tímans - Margrét Jónsdóttir skáldkona 75 ára“ Tíminn, 7. september 1968 (skoðað 4. ágúst 2019)
  2. 2,0 2,1 Skald.is, „Margrét Jónsdóttir“ (skoðað 4. ágúst 2019)
  3. 3,0 3,1 3,2 „Ísland er land þitt“, Morgunblaðið, 15. júní 2002 (skoðað 4. ágúst 2019)
  4. Skald.is, „Ísland er land þitt - Margrét Jónsdóttir“ Geymt 5 ágúst 2019 í Wayback Machine (skoðað 4. ágúst 2019)
  5. „„Ísland er land þitt" varð til á geðdeild“. K100. Sótt 3. ágúst 2024.
  6. „Beggja blands að vera í fremstu víglínu - Vísir“. visir.is. 29. nóvember 2005. Sótt 3. ágúst 2024.
  7. „Margrét Jónsdóttir (1893-1971)“. Glatkistan. 26. ágúst 2019. Sótt 3. ágúst 2024.

Tenglar

breyta