Margrét Jónsdóttir (skáld)
Margrét Jónsdóttir (20. ágúst 1893 - 9. desember 1971) var íslenskt skáld, kennari og ritstjóri barnablaðsins Æskunnar. Hið þekkta kvæði Ísland er land þitt var samið af Margréti.
Fjölskylda
breytaMargrét fæddist að Árbæ í Holtum í Rangárvallasýslu. Foreldrar hennar voru Stefanía Jónsdóttir og Jón Gunnlaugur Sigurðsson sýsluskrifari í Rangárþingi og síðar bóndi að Hofgörðum á Snæfellsnesi.[1] Stefanía var einstæð móðir og starfaði sem ráðskona hjá Páli Briem sýslumanni en hafði þrátt fyrir fátækt gengið í Kvennaskólann að Ytri-Ey þar sem Elín Briem var skólastýra. Þegar Margrét var um tvítugt fluttust mæðgurnar til Reykjavíkur og bjuggu saman allt þar til Stefanía lést árið 1956.[2] Þegar Margrét var 66 ára gömul giftist hún Magnúsi Péturssyni kennara frá Akureyri en þau höfðu fyrst kynnst í kaupavinnu sem ungt fólk mörgum áratugum fyrr.[3]
Menntun og störf
breytaÞegar Margrét var 12 ára gætti hún barna á heimili Einars Benediktssonar skálds.[3] Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík 1910-1912. Að loknu námi í Kvennaskólanum starfaði hún við heimiliskennslu í Borgarfirði og Gullbringusýslu auk þess sem hún vann við verslunar- og skrifstofustörf. Árið 1923 hélt hún til Danmerkur og vann þar við saumaskap og sótti kennaranámskeið. Hún var einn vetur í Björgvin í Noregi en snéri aftur til Íslands og settist í Kennaraskóla Íslands og lauk kennaraprófi árið 1926.
Hún kenndi við Barnaskólann í Reykjavík og síðar Austurbæjarskóla, en hætti kennslu vegna veikinda árið 1944 en vann lengi sem gæslukona á Þjóðminjasafninu. Hún starfaði mikið að félagsmálum, var m.a. í Góðtemplarareglunni og í Lestarfélagi kvenna og var ritstjóri barnablaðsins Æskunnar frá 1928-1942.[2] Blaðið varð útbreiddasta barnablað á Íslandi undir ritstjórn Margrétar.[3]
Margrét var iðin við ritstörf og eftir hana liggja fjöldi ljóðabóka en einnig þýðingar, barnabækur, smásögur og leikrit auk skrifa hennar í Æskuna. Þekktasta kvæði Margrétar er án efa Ísland er land þitt en það birtist fyrst í þjóðhátíðarblaði Morgunblaðsins 17. júní 1954.[4] Síðar samdi Magnús Þór Sigmundsson lag við texta Margrétar.[5][6][7]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Íslendingaþættir Tímans - Margrét Jónsdóttir skáldkona 75 ára“ Tíminn, 7. september 1968 (skoðað 4. ágúst 2019)
- ↑ 2,0 2,1 Skald.is, „Margrét Jónsdóttir“ (skoðað 4. ágúst 2019)
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Ísland er land þitt“, Morgunblaðið, 15. júní 2002 (skoðað 4. ágúst 2019)
- ↑ Skald.is, „Ísland er land þitt - Margrét Jónsdóttir“ Geymt 5 ágúst 2019 í Wayback Machine (skoðað 4. ágúst 2019)
- ↑ „„Ísland er land þitt" varð til á geðdeild“. K100. Sótt 3. ágúst 2024.
- ↑ „Beggja blands að vera í fremstu víglínu - Vísir“. visir.is. 29. nóvember 2005. Sótt 3. ágúst 2024.
- ↑ „Margrét Jónsdóttir (1893-1971)“. Glatkistan. 26. ágúst 2019. Sótt 3. ágúst 2024.