Marcus Aurelius Severus Antoninus (4. apríl 1888. apríl 217), þekktur sem Caracalla, var keisari Rómaveldis á árunum 198 – 217. Viðurnefnið Caracalla fékk hann vegna yfirhafnar, af keltneskum uppruna, sem callaðist caracallus og hann klæddist iðulega. Caracalla er minnst sem eins af grimmustu keisurunum í sögu Rómaveldis enda lét hann myrða mikinn fjölda fólks, þar á meðal bróður sinn og eiginkonu.

Caracalla
Rómverskur keisari
Valdatími 198 – 217
með S. Severusi (198 – 211),
með Geta (209 – 211)

Fæddur:

4. apríl 188
Fæðingarstaður Lyons

Dáinn:

8. apríl 217
Dánarstaður Mesopotamia
Forveri Septimius Severus
Eftirmaður Macrinus
Maki/makar Fulvia Plautilla
Faðir Septimius Severus
Móðir Julia Domna
Fæðingarnafn Lucius Septimius Bassianus
Keisaranafn Caesar Marcus Aurelius Severus Antoninus Pius Augustus
Ætt Severíska ættin

Uppvöxtur

breyta

Caracalla var sonur Septimiusar Severusar rómarkeisara og Juliu Domnu. Caracalla átti einn bróður, Publius Septimius Geta, sem var einu ári yngri en hann. Severus gerði Caracalla að undirkeisara (caesar) árið 196, þegar hann var átta ára. Aðeins tveimur árum síðar, 198, varð Caracalla að fullgildum með-keisara (augustus), tíu ára gamall. Titillinn var þó fyrst og fremst ætlaður til þess að staðfesta að Caracalla væri erfingi Severusar, frekar en að gefa honum mikil völd. Lengst af virðist Severus hafa ætlað Caracalla einum að taka við af sér en árið 209 varð Geta einnig með-keisari.

Valdatími

breyta

Sameiginleg stjórn með Geta

breyta

Þegar Septimius Severus lést í febrúar árið 211 tók Caracalla við völdunum ásamt bróður sínum. Samstarf bræðranna gekk þó ekki vel og þeir íhuguðu að skipta heimsveldinu í tvennt, þar sem Caracalla átti að stjórna vesturhlutanum og Geta austurhlutanum. Móðir þeirra virðist hafa sannfært þá um að hætta við þessa fyrirætlan. Bræðurnir einangruðu sig þá frá hvorum öðrum, höfðu hvor sína hirð og töluðust sjaldan við. Sameiginleg stjórn þeirra entist ekki út árið því í desember árið 211 plataði Caracalla Geta til þess að hitta sig án lífvarða sinna, en lét þá sína eigin lífverði myrða Geta. Í kjölfarið fóru fram fjölmargar aftökur á stuðningsmönnum Geta. Einnig lét Caracalla drepa eiginkonu sína, Fulviu Plautillu, sem hafði verið í útlegð síðan árið 205.

Stjórnsýsluaðgerðir

breyta

Morðin á Geta og stuðningsmönnum hans voru illa séð á meðal almennings í Róm, en líkt og faðir hans reiddi Caracalla sig á stuðning hersins fremur en almennings. Til þess að tryggja sér stuðning hersins ákvað Caracalla að hækka laun allra hermanna heimsveldisins umtalsvert. Þessi ákvörðun reyndist vera gríðarlega kostnaðarsöm og kallaði á aðgerðir í ríkisfjármálum. Að hluta til reyndist mögulegt að fjármagna launahækanirnar með því að gera upptækar eignir stuðningsmanna Geta, en Caracalla þurfti einnig að grípa til þess ráðs að minnka silfurinnihald silfurmyntarinnar (denarius), og blanda hana með kopar. Margir fyrirrennarar Caracalla höfðu gert slíkt hið sama, en nú var hlutfall silfurs í myntinni komið niður í aðeins um 50 prósent. Vandamálin í ríkisfjármálum voru líka að líkindum kveikjan að því að árið 212 gaf Caracalla út tilskipun sem kölluð hefur verið Constitutio Antoniniana. Þessi tilskipun kvað á um að allir frjálsir menn innan Rómaveldis fengju fullan ríkisborgararétt. Fram að því höfðu aðeins íbúar á Ítalíuskaganum haft ríkisborgararétt. Helsta ástæðan fyrir þessari aðgerð var líklega sú að með henni var hægt að heimta skatt af fleirum. Einnig var hægt að kveða fleiri menn í herinn.

Caracalla lét byggja Baðhús Caracalla í Róm sem var með stærstu byggingum sem byggðar voru í borginni í fornöld. Aðalbygging baðhússins var kláruð á valdatíma Caracalla en viðbætur voru byggðar á valdatíma Elagabalusar og Alexanders Severusar. Baðhúsið, sem var opnað árið 216, var einskonar frístundamiðstöð þess tíma og innihélt bókasafn ásamt bað- og íþróttaaðstöðu.

 
Fjölskylda Caracalla og Geta. Búið er að þurrka út andlit Geta, að fyrirskipan Caracalla.

Ferðalög og hernaður í austrinu

breyta

Caracalla hélt í herferð gegn Alamönnum við Rín, árið 213, sem endaði fljótlega með friðarsamningum. Eftir það hélt hann austur á bóginn og ferðaðist um grískumælandi svæði Rómaveldis. Hann ferðaðist um slóðir Alexanders mikla og heimsótti sögusvið Hómerskviðanna. Heimsókn hans til Alexandríu í Egyptalandi hófst með miklum hátíarhöldum, þar sem Caracalla heimsótti meðal annars gröf Alexanders mikla, en hún endaði hins vegar með blóðbaði. Caracalla virðist hafa fundist íbúar borgarinnar móðga sig með því að gera grín að morðinu á Geta. Caracalla lét hermenn sína ráðast gegn óvopnuðum íbúunum á götum borgarinnar þar sem mörg þúsund manns voru teknir af lífi, auk þess sem hann leyfði hermönnum sínum að ræna borgina.

Helsta ástæða þess að Caracalla ferðaðist austur var sú að hann ætlaði að ráðast inn í Parþíu. Borgarastyrjöld geisaði í Parþíu og því var góður tími fyrir Rómverja að ráðast gegn þeim. Rómverski herinn vann nokkra hernaðarsigra og komst langt inn á landsvæði óvinarins, en dró sig þá til baka. Caracalla hafði uppi áætlanir um að ráðast að nýju inn í Parþíu árið eftir. Af því varð hins vegar ekki því árið 217 var Caracalla myrtur af Juliusi Martialis, liðsforingja í lífvarðasveit keisarans. Yfirmaður lífarðasveitarinnar, Macrinus, var lýstur keisari að Caracalla föllnum.

Heimildir

breyta

Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).


Fyrirrennari:
Septimius Severus
Rómarkeisari
(211 – 217)
Eftirmaður:
Macrinus