Geta

Rómverskur keisari frá 209 til 211


Publius Septimius Geta (7. mars 189 – 26. desember 211) var keisari Rómaveldis á árunum 209 – 211.

Geta
Rómverskur keisari
Valdatími 209 – 211
með S. Severusi (209 – 211),
með Caracalla (209 – 211)

Fæddur:

7. mars 189
Fæðingarstaður Róm

Dáinn:

26. desember 211
Dánarstaður Róm
Forveri Septimius Severus
Eftirmaður Caracalla
Faðir Septimius Severus
Móðir Julia Domna
Fæðingarnafn Publius Septimius Geta
Keisaranafn Caesar Publius Septimius Geta Augustus
Ætt Severíska ættin

Geta var sonur Septimiusar Severusar og Juliu Domnu og bróðir Caracalla, sem var einu ári eldri en hann. Geta fékk titilinn augustus árið 209 sem þýddi að í orði kveðnu var hann þá orðinn fullgildur keisari. Severus, faðir hans, var þó sá sem hafði völdin og gaf honum aðeins þennan titil til þess að staðfesta að hann ætti að taka við af sér. Geta var þó í skugganum af bróður sínum því hann hafði verið útnefndur augustus árið 198.

Severus tók báða bræðurna með sér í herferð til Bretlands árið 208. Ætlunin var að leggja Caledoniu (Skotland) undir Rómaveldi. Hlutverk Geta var að stjórna skattlöndum Rómverja á svæðinu á meðan Severus og Caracalla einbeittu sér að hernaðinum. Severus lést árið 211, áður en markmiðinu hafði verið náð og bræðurnir gáfu herferðina upp á bátinn. Þeir héldu til Rómar og tóku til við að stjórna heimsveldinu saman. Samstarf þeirra var þó vonlaust frá upphafi því þeir höfðu um langa hríð eldað saman grátt silfur. Næstu mánuðir einkenndust af vaxandi tortryggni og hatri á milli bræðranna. Ástandið fór síversnandi þar til í desember 211 þegar Caracalla kallaði Geta og Juliu Domnu, móður þeirra, á sinn fund. Þar lét hann lífverði sína drepa Geta, sem að sögn lést í fangi móður sinnar. Caracalla lét öldungaráðið í kjölfarið samþykkja damnatio memoriae fyrir Geta, en það var tilskipun sem kvað á um að öll ummerki um Geta, svo sem styttur og áletranir, skyldu vera þurrkuð út.


Fyrirrennari:
Septimius Severus
Rómarkeisari
(209 – 211)
Eftirmaður:
Caracalla