Marc Bloch

Marc Léopold Benjamin Bloch (6. júlí 1886 – 16. júní 1944) var franskur sagnfræðingur og stofnandi sagnfræðitímaritsins Annales d'histoire économique et sociale ásamt Lucien Fevbre. Bloch er einn áhrifamesti sagnfræðingur Frakklands og átti þátt í því að breiða út áhrif franska sagnfræðiskólans um og út fyrir Evrópu. Bloch barðist í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni og hlaut bæði frönsku heiðursorðuna (Légion d'honneur) og stríðskrossinn (Croix de guerre) fyrir þjónustu sína. Eftir hernám nasista á Frakklandi gekk Bloch í frönsku andspyrnuna en var handsamaður af Gestapo-liðum og tekinn af lífi þann 16. júní 1944.

ÆviágripBreyta

Marc Bloch var ættaður frá Alsace-héraði í austurhluta Frakklands. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu í sagnfræði eftir nám í Berlín og Leipzig og gerðist kennari í háskóla í Montpellier. Hann var kvaddur í franska herinn þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út, reis þar fljótt til metorða og var sæmdur fjölda heiðursmerkja. Hann var orðinn höfuðsmaður í lok styrjaldarinnar en eftir hana hóf hann kennarastörf á ný og gerðist lektor í háskólanum í Strassborg.[1] Þar kynntist Bloch Lucien Fevbre og stofnaði árið 1929 með honum tímaritið Annales d'histoire économique et sociale eða Annálana. Bloch flutti til Parísar og gerðist þar prófessor í hagsögu í Sorbonne-háskóla árið 1936.[2]

Bloch var kvaddur í herinn á ný þegar seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939. Eftir að Frakkar voru sigraðir missti Bloch stöðu sína í Sorbonne-háskóla þar sem hann var gyðingur og þýska hernámsliðið og Vichy-stjórnin liðu ekki að gyðingar sinntu kennarastörfum í svo virtri stofnun.[3] Bloch fékk starf í háskólanum í Clermont-Ferrand en undi þar illa við og gekk að endingu til liðs við frönsku andspyrnuhreyfinguna í Lyon. Þýskir lögreglumenn tóku Bloch og hóp annarra andspyrnumanna höndum þann 8. júní 1944 og myrtu Bloch átta dögum síðar.

TilvísanirBreyta

  1. Bloch, Marc. Til varnar sagnfræðinni. Aðfaraorð eftir Guðmund J. Guðmundsson, bls. 7. Selfoss (2017).
  2. Til varnar sagnfræðinni, bls. 8.
  3. Til varnar sagnfræðinni, bls. 9.