María Júlía (skip)

varð- og björgunarskip

María Júlía BA 36 er fyrrum varðskip og björgunarskip sem Landhelgisgæslan notaði frá 1950 til 1969. Skipið var smíðað úr eik í Frederikssund í Danmörku og var heildarkostnaður 1,5 milljónir króna en um 300.000 af þeirri upphæð voru framlög frá slysavarnardeildum á Vestfjörðum. Skipið var nefnt í höfuðið á Maríu Júlíu Gísladóttur frá Ísafirði sem gaf árið 1937 verulegt fjármagn til smíði björgunarskips. Í skipinu var sérútbúin rannsóknarstofa fyrir fiskifræðinga og fyrir sjómælingar. Skipið var því fyrsti vísir að hafrannsóknarskipi á Íslandi.[1][2]

María Júlía BA 36
María Júlía í Ísafjarðarhöfn
Skipstjóri:
Útgerð:
Þyngd: 137 brúttótonn
Lengd: 27,5 m
Breidd: 6,37 m
Ristidýpt: 3,25 m
Vélar: 425 hestafla díselvél
Siglingahraði: sjómílur
Tegund: Eikarskip
Bygging: 1950

Talið er að áhafnir skipsins hafi bjargað um tvö þúsund manns.[3]

Árið 1969 seldi Landhelgisgæslan skipið sem var næstu ár notað sem fiskiskip og gert út frá Patreksfirði og Tálknafirði. Til stóð að selja það til Suður-Afríku en árið 2003 keyptu Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti og Byggðasafn Vestfjarða skipið með það fyrir augum að gera upp og reka sem safnskip sem gæti siglt milli staða á Vestfjörðum.[4] Árið 2006 var skipið flutt til Patreksfjarðar til viðgerða og árið eftir til Bolungarvíkur og síðan til Þingeyrar.

Skipið var seinna dregið til Ísafjarðar þar sem það lá undir skemmdum sökum skorts á fjármagni til endurbóta á því. Árið 2018 lagði formaður skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar, Sigurður J. Hreinsson, til að skipinu yrði sökkt á litlu dýpi þar sem það væri aðgengilegt fyrir sportkafara.[5]

Árið 2023 fékkst loks fjármagn til endurbóta og var skipið dregið af Landhelgisgæslunni til Akureyrar þar sem endurbætur hófust.[6]

Heimildir

breyta
  1. Ágúst Ingi Jónsson (26 febrúar 2020). „Hætta á að gamla varðskipið sökkvi“. Morgunblaðið. bls. 10. Sótt 27 febrúar 2025 – gegnum Tímarit.is. 
  2. „Maríu Júlíu fagnað á Vestfjörðum“. Vesturland. 29 apríl 1950. bls. 1, 8. Sótt 27 febrúar 2025 – gegnum Tímarit.is. 
  3. Halla Ólafsdóttir (2 nóvember 2018). „Arfur bátamenningar gæti glatast“. RÚV. Sótt 27 febrúar 2025.
  4. „María Júlía verður fljótandi safn“. Morgunblaðið. 11 júlí 2003. Sótt 27 febrúar 2025.
  5. Halla Ólafsdóttir (11 júní 2018). „Vill sökkva fyrrum björgunarskipi Vestfirðinga“. RÚV. Sótt 27 febrúar 2025.
  6. „María Júlía dregin til Akureyrar“. Landhelgisgæsla Íslands. 3 apríl 2023. Sótt 27 febrúar 2025.

Tenglar

breyta