Loðna
Loðna (fræðiheiti: Mallotus villosus) er smávaxinn uppsjávarfiskur sem heldur sig í torfum. Loðnan er algeng í köldum og kaldtempruðum sjó á norðurhveli jarðar. Stærstu loðnustofnar þar eru í Barentshafi og á Íslandsmiðum. Á sumrin er loðnan við íshafsröndina þar sem hún étur dýrasvif. Stór loðna étur ljósátu og önnur smákrabbadýr. Afræningjar loðnu eru m.a. hvalir, selir og þorskur. Loðnan hrygnir á sandbotni og við sandstrendur 2-6 ára og drepst yfirleitt að lokinni hrygningu.
Loðna | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Mallotus villosus Müller, 1776 |
Hrygna nær allt að 20 sm lengd og hængur verður allt að 25 sm langur. Þegar mikið er af síld í Barentshafinu virðist það hafa neikvæð áhrif á loðnuna, sennilega bæði vegna samkeppni um æti og vegna þess að síldin étur loðnuhrogn.
Nafn
breytaFiskinum var gefið þetta nafn á íslensku sökum þess hve laust og aflangt roðið var á hliðunum. Sömu sögu er að segja um fræðlega heitið, mallotus úr grísku og villosus úr latínu merkja bæði 'loðinn'.
Loðna og vistkerfi sjávar
breytaLoðnan er mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar við Ísland. Loðna er aðalfæða þorsks og flestallir fiskar sem éta aðra fiska lifa á loðnu einhvern hluta ævi sinnar. Loðnan lifir á svifdýrum og er í 3. þrepi fæðupýramídans. Í gegnum loðnu flyst orka úr norðurhöfum inn í vistkerfi sjávar við Ísland. Fullorðin loðna sækir í æti norður í Íshaf að sumarlagi. Á haustin gengur loðnan svo aftur í átt til Íslands. Frá október og fram að hrygningu loðnu í mars er hún mikilvæg fæða ýmissa nytjafiska.
Loðnuveiðar
breytaLoðna er brædd og notuð í fiskifóður og lýsisframleiðslu, en er einnig notuð til manneldis. Loðnuhrogn eru eftirsótt matvara í Japan.
Loðnuveiðar eiga sér aðallega stað þegar hrygningarstofninn þéttist fyrir austan landið og gengur réttsælis með Suðurlandi að vetrarlagi, á leið til hrygningar. Sjávarútvegsráðuneyti ákvarðar það magn loðnu sem má veiða hverju sinni og styðst við þá aflareglu að hrygningarstofninn sé ekki minni en 400 þús tonn, eftir að veiðum lýkur.[1] Hafrannsóknastofnun mælir stærð uppvaxandi árganga reglubundið, en endanleg mæling á stærð hrygningargöngunnar fæst ekki fyrr en hún er farin að þéttast, um sama leyti og veiðar eru að hefjast. Af þessu leiðir að lokaákvörðun um heildarafla er oft tekin um miðja vertíð, sem tíðkast yfirleitt ekki um langlífari tegundir sem halda sig á íslensku landgrunni allt sitt líf.
Hrygningarstofn loðnu er mjög misstór milli ára, enda samanstendur hann að mestu leyti af einum einasta árgangi, 3 ára fiski. Þetta endurspeglast í árlegum loðnuafla sem hefur sveiflast á bilinu 0 (fiskveiðiárið 1982-1983, óvenju lítill hrygningarstofn) til 1571 þús tonn (1996-1997) og var 377 þús tonn 2006-2007.[1] Fiskveiðiárið 2007-2008 mældist lítill hrygningarstofn og voru veiðar stöðvaðar 21. til 27. febrúar, á meðan ítrekaðar mælingar Hafrannsóknastofnunar stóðu yfir.[2][3] Eftir að stofninn hafði mælst yfir 400 þús tonn tilkynnti sjávarútvegsráðherra stighækkandi aflamark, síðast 207 þús tonn þann 3. mars.[4]
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Ástand og aflahorfur 2007. Fjölrit Hafrannsóknastofnunar 129“.
- ↑ „Fréttatilkynning sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis 4/2008“.
- ↑ „Fréttatilkynning sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis 5/2008“.
- ↑ „Fréttatilkynning sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis 10/2008“.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Capelin“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. júlí 2006.
- „Hjálmar Vilhjálmsson. 1998. Lífríki sjávar: Loðna. Reykjavík: Hafrannsóknastofnun“ (PDF).
- „Fishbase: Mallotus villosus“.