Magnús Einarsson á Tjörn

Sr. Magnús Einarsson á Tjörn. Hann var fæddur í Nesi í Eyjafirði 13. júlí 1734 en lést á Tjörn í Svarfaðardal 29. nóvember 1794. Foreldrar hans voru Einar Jónsson, síðast spítalahaldari á Möðrufelli, og fyrri kona hans, Guðrún Magnúsdóttir frá Saurbæ í Hörgárdal. Magnús „lærði undir skóla hjá Þórarni sýslumanni Jónssyni á Grund í Eyjafirði og varð síðan stúdent úr Hólaskóla 1759. Hann vígðist að Stærra Árskógi 1763, síðan að Upsum 1765 og að Tjörn í Svarfaðardal árið 1769. Tjörn hélt hann til æviloka og er jafnan kenndur við þann bæ. [1]. Magnús þótti mikið gáfumenni, andríkur kennimaður, orti mikið en var jafnan sárafátækur. Magnús var á Tjörn þegar Skaftáreldar og móðuharðindin geisuðu og varð þá að þiggja gjafakorn sér til lífsbjargar eins og fátækustu bændurnir í sveitinni.[2] Eftir hann er mikið efni til, bæði bundið mál og óbundið, mest óprentað. Hann var einnig skrifari góður og skrifaði upp fornar sögur m.a. Njálu. Ýmsar sögur eru til af Magnúsi í þjóðsagnasöfnum og þáttum og þar kemur í ljós að hann var ákvæðaskáld, kunni galdur og var í samskiptum við bæði drauga og huldufólk. Staka eftir Sr. Magnús, kveðin á leið frá UrðumTjörn er draugalegt rökkrið tók að síga á:

Endast dagur, eg það finn,
eitthvað er nú á ferðum.
Drottinn leiði drösulinn minn;
dimmt er í Bakkagerðum.

Magnús var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Soffía Björnsdóttir frá Vindheimum á Þelamörk. Þau eignuðust sex börn sem upp komust og getur fjöldi Svarfdælinga rakið ættir sínar til þeirra hjóna. Soffía andaðist 1787. Seinni kona Magnúsar var Guðrún Höskuldsdóttir frá Karlsá á Upsaströnd. Þau eignuðust eina dóttur sem seinna varð húsfreyja á Ingvörum, næsta bæ við Tjörn.

Þegar sr. Magnús lést kvað sr. Jón Þorláksson á Bægisá þessi stuttu og gagnorðu eftirmæli:

Nú grætur mikinn mög
Minerva táragjörn.
Nú kætist Móría mjög
mörg sem á dárabörn.
Nú er skarð fyrir skildi,
nú er svanurinn nár á Tjörn

Heimildir

  1. Páll Eggert Ólason. Íslenzkar æviskrár III, bls. 417
  2. Hjörtur E. Þórarinsson 1992. Prestssetrið á Tjörn og sóknarprestar frá siðaskiptum. Í ritinu Tjarnarkirkja 100 ára 1892-1992. Sóknarnefnd Tjarnarkirkju gaf út.