Karlsá er bær í Dalvíkurbyggð. Hann er við Ólafsfjarðarveg um 2 km utan við Dalvík. Strandlengjan neðan við bæinn nefnist Upsaströnd og teygir sig frá Brimnesá við Dalvík og út í Ólafsfjarðarmúla. Karlsá fellur til sjávar niður með túninu rétt sunnan bæjarins. Hún kemur úr Karlsárdal. Við ósinn er sæmileg lending og þar var naust frá fornu fari, Karlsárnaust. Karlsárfjall rís upp af bænum tæplega 1000 m hátt.

Karlsá á Upsaströnd utan Dalvíkur. Karlsárfjall í baksýn
Skilti við bæinn Karlsá. Hér er boðið upp á þyrluskíðamennsku

Bæjarins er getið strax í Landnámu. Þar bjó Karl rauði sonur Þorsteins Svörfuðar og þar var hann heygður í skipi sínu segir Svarfdæla saga. Duggu-Eyvindur Jónsson ólst upp á Karlsá. Hann varð frægur fyrir skipasmíðar sínar. Aðstaða hans var í Karlsárnausti. Þar smíðaði hann duggu sína og mörg smærri skip og báta. Minnismerki um Duggu-Eyvind, sem sýnir dugguna undir fullum seglum, er við þjóðveginn sunnan Karlsár. Þar neðan við er áletrun: "Hér við naustin á Karlsá var mikil skipa- og bátasmíðastöð á 18. öld. Stærst og frægast var haffært skip með hollensku lagi. Yfirsmiður og eigandi var Eyvindur Jónsson duggusmiður f. 1679,d. 1746. Duggan fórst við land 1717." Aftan á varðanum er þessi vísa:

Meðan íslenskt flýtur far
og fornar sagnir geymast
afrek Duggu-Eyvindar
aldrei munu gleymast.

Lengst af var stundaður hefðbundinn búskapur og sjósókn á Karlsá. Nú er þar ferðamannaþjónusta. Eigandi jarðarinnar er ferðaþjónustufyrirtækið Bergmenn, sem sérhæfir sig í fjallaklifri, fjallaskíðamennsku og þyrluskíðamennsku (sjá Klængshóll).