Lundúnabruninn mikli

Lundúnabruninn mikli (þekkt sem The Great Fire of London á ensku) var stórbruni sem varð í miðborg Lundúna sunnudaginn 2. september 1666 og stóð yfir í þrjá daga til miðvikudagsins 5. september 1666. Bruninn eyddi gömlu Lundúnaborg innan rómverska borgarmúrsins. Eldurinn kom nálægt Westminsterborg en snerti hana ekki né úthverfin. 13.200 hús eyddust í brunanum ásamt 87 kirkjum, gömlu dómkirkju heilags Páls og mörgum byggingum í eigu stjórnvalda.

Málverk sem sýnir Lundúnabrunann mikla

Heimili 70.000 Lundúnabúa eyddust en 80.000 manns bjuggu í borginni á þeim tíma. Ekki er vitað hversu margir fórust í brunanum en talið er að mannfall hafi verið lítið. Einungis sex dauðsföll voru skráð. Nýlega hefur þessi ályktun verið véfengd af því að haldið er að fátækt fólk og millistéttar, sem fórst, hafi ekki verið skráð. Einnig er haldið að eldurinn hafi eytt þeim líkum sem eftir voru.

Eldurinn kom upp í bakaríi Thomas Farriner á Pudding Lane skömmu eftir miðnætti sunnudaginn 2. september og breiddist fljótt út í vesturátt. Þáverandi borgarstjóri, Thomas Bloodworth, var mjög óákveðinn og í vafa um hvort ætti að rífa byggingar niður til þess að koma í veg fyrir að eldurinn breiddist meira út. Skipun var gefin um að rífa skyldi byggingar niður um kvöldið en þá magnaðist eldurinn í bakaríinu og það var orðið of seint. Á mánudeginum breiddist bruninn út í norðurátt að hjarta borgarinnar. Stjórnleysi varð á götunum og orðrómur var um að útlendingar væru að kveikja í húsum. Á þriðjudeginum náði eldurinn dómkirkjunni en tilraunir til að slökkva eldinn byrjuðu að bera árangur. Loksins minnkaði vindurinn og byssupúður var notað til þess að sprengja byggingar og stöðva með því útbreiðslu eldsins.

Heimild

breyta
   Þessi sögugrein sem tengist Lundúnum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.