Lukkuborgarætt
(Endurbeint frá Lukkuborgarar)
Lukkuborgarætt hefur verið ríkjandi konungsætt Danmerkur frá 1863, er Kristján 9. tók við ríki. Hún er jafnframt ríkjandi konungsætt Noregs frá árinu 1905 og var konungsætt Grikklands með hléum frá 1863 til 1973.
Ættin er kennd við Glücksburg, bæ í Slésvík, og heitir reyndar fullu nafni Slesvig-Holsten-Sønderborg-Lyksborg á dönsku, en Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg á þýsku. Lukkuborgarætt er kvísl af Aldinborgarætt, sem hefur verið við völd í Danmörku síðan Kristján I varð konungur árið 1448.