Luc Lafnet
Luc Lafnet (22. janúar 1899 – 29. september 1939) var belgískur myndlistarmaður sem sinnti á skömmum ferli afar fjölbreytilegri listsköpun m.a. undir dulnefnunum Davine og Jim Black. Hann hefur í seinni tíð verið talinn eiga talsverðan þátt í þróun myndasöguhetjunnar Svals sem samverkamaður teiknarans Rob-Vel.
Ævi og störf
breytaLuc eða Lucien Lafnet fæddist í Liège og hóf ungur listnám þar í borg. Þegar á táningsaldri naut hann viðurkenningar fyrir verk sín og lifði og hrærðist í listamannakreðsum borgarinnar. Hann fluttist til Parísar einungis 21 árs að aldri og vakti snemma athygli fyrir málaralist, ætingu og freskugerð. Hann vann veggskreytingar fyrir ýmsar kirkjur en jafnframt vann hann mikið af myndverkum um Biblíuleg efni með ætingu, sem nutu nokkurra vinsælda.
Á sama tíma og Lafnet var að skapa sér orðspor fyrir trúarlegar myndir átti hann sér aðra hlið í listsköpun sinni. Hann teiknaði mikið af kynferðislegum myndum sem sýndu m.a. BDSM-kynlíf, yfirleitt undir listamannsnafninu Jim Black en einnig sem Grim, Rich, Pol o.fl.
Myndasögugerð og sköpun Svals
breytaLíf listmálarans á fjórða áratugnum einkenndist af miklu harki. Lafnet tók að sér ótal verkefni, svo sem við auglýsingagerð og teikningu myndasagna, einatt undir öðrum nöfnum. Eitt þeirra dulnefna sem hann er nú talinn hafa notast við í því hlutverki var Davine, en þegar árið 1934 tóku að birtast myndasögur í barnablöðum undir því nafni sem virðast bera augljós höfundareinkenni Lafnets. Síðar átti Blanche Dumoulin, eiginkona Rob-Vel og gömul skólasystir og vinkona Lafnet frá Liège, eftir að teikna Svals-myndasögur undir heitinu Davine og var lengi vel talið að hún stæði ein að baki því dulnefni.
Þegar Myndasögublaðið Svalur var stofnað árið 1938 var Rob-Vel ráðinn til að skapa og teikna titilpersónuna, auk þess að semja aðrar myndasögur fyrir blaðið. Vinnuálagið var mikið og greip teiknarinn því til þess að ráða Lafnet, sameiginlegan vin þeirra hjóna, sér til aðstoðar en þau voru öll búsett í París.
Lafnet og Rob-Vel unnu saman að myndasögum um félagana Bibor og Tribar í Svals-tímaritinu þar sem Lafnet teiknaði m.a. auðkennandi bakgrunnspersónur, sem bera sterkt svipmót af ýmsu því sem finna má í sumum elstu sögunum um Sval. Þótt ljóst sé að Rob-Vel hafi einn og óstuddur skapað vikapiltinn Sval eru sterk líkindi til þess að Lafnet hafi átt stóran þátt í gerð sagnanna í blábyrjun. Jafnvel er talið mögulegt að Lafnet hafi stýrt penslinum í fyrstu myndasögunni um Sval, en þar sést teiknari sem er sláandi líkur Lafnet í útliti teikna söguhetjuna sem óðara lifnar til lífsins.
Sviplegt fráfall
breytaLuc Lafnet kvæntist Jeanne Valmaldren. Þau áttu saman dótturina Anne-Marie sem lést aðeins 13 ára gömul árið 1938. Dótturmissirinn varð Lafnet gríðarlegt áfall og innan við ári síðar greindist hann með krabbamein í brisi og lést eftir skamma sjúkralegu.
Heimildir
breyta- Luc Lafnet; grein á myndasöguvefnum Lambiek.net
- Splint & Co. 1938-1946. Egmont Serieforlaget. 2009. ISBN 978-87-7679-560-3.