Louis Pio (14. desember 184127. júní 1894) var danskur sósíalisti og fyrsti formaður Jafnaðarmannaflokksins.

Louis Pio

Ævi og störf breyta

Pio fæddist í Roskilde sonur yfirmanns í danska hernum af frönskum ættum og konu af borgarastétt. Foreldrarnir skildu þegar hann var aðeins tólf ára og við tóku erfið ár. Honum var vísað snemma úr skóla vegna agavandamála og naut hann því lítillar formlegrar menntunar. Hann tók þó að kynna sér danskar þjóðsögur og hóf að skrifa í blöð og tímarit. Árið 1870 hóf hann störf fyrir dönsku póstþjónustuna og hefur honum verið eignaður heiðurinn að rauðu póstkössunum sem hafa fylgt stofnuninni til þessa dags.

Hugmyndir sósíalista hreyfðu snemma við Pio en það var þó ekki fyrr en árið 1871 þegar fregnir af Parísarkommúnunni breiddust út um Evrópu að hann ákvað að stíga skrefið til fulls. Hann sagði upp starfi sínu hjá Póstinum og hóf bréfaskipti við forystumenn í Alþjóðasambandi verkalýðsins í Genf og hugsjónabræður sína í Kaupmannahöfn. Ásamt þeim Harald Brix og Poul Geleff tók hann að undirbúa stofnun Danmerkurdeildar Alþjóðasambandsins og að skipuleggja verkalýðsfélög að breskri fyrirmynd. Á þessu tímabili starfaði Pio á daginn sem einkakennari hjá auðugri fjölskyldu, en skrifaði róttækar greinar og ræður á kvöldin.

Þann 15. október 1871 var Danmerkurdeild Alþjóðasambandsins, Jafnaðarmannaflokkurinn, stofnuð með Pio sem formann. Sú ákvörðun var ekki óumdeild þar sem hann þótti ráðríkur, nánast einráður, í stjórnarháttum en tengsl hans við erlenda leiðtoga jafnaðarmannahreyfingarinnar gerðu valið þó augljóst.

Pio vakti athygli fyrir mikla skipulagshæfileika, einkum þegar kom að verkföllum, sem hann beitti af miklum hyggindum í kjaradeilum. Hann gætti þess að valda hámarksröskun með því að velja vandlega hvaða hópar færu í verkfall og gætti þess jafnframt að eiga nóg í verkfallssjóðum. Þetta tryggði félagsmönnum hans miklar kjarabætur á skömmum tíma og varð til þess að hratt fjölgaði í verkalýðshreyfingunni.

Árið 1872 voru þeir Pio, Brix og Geleff handteknir fyrir að brjóta gegn banni stjórnvalda við verkfallsfundum. Pio var dæmdur í fimm ára fangelsi og öðlaðist í kjölfarið stöðu píslarvotts í hugum jafnaðarmanna. Eftir afplánun varð hann leiðtogi flokksins á ný, en fljótlega tók að bera á óánægju með einræðistilburði hans. Árið 1877 fluttist hann vestur um haf og kom í ljós að lögregluyfirvöld höfðu greitt honum fyrir að yfirgefa landið, sem þótti gríðarlegur álitshnekkir fyrir orðspor hans. Í Kansas freistaði hann þess að koma á stofn sósíalískri nýlendu en það mistókst, ekki hvað síst vegna kunnáttuleysi Pio í landbúnaðarstörfum. Hann fluttist til Chicago og bjó þar við kröpp kjör og lést árið 1894.