Lotugræðgi (bulimia nervosa) er sjúkdómur af sálrænum toga. Þeir sem þjást af lotugræðgi taka nokkurskonar átköst, það er að segja neyta mikils matar á mjög skömmum tíma. Þegar lotugræðgi-sjúklingur borðar þá raðar hann í sig matföngum og oft mjög miklu magni í einu og losar sig svo við allt með því að framkalla uppköst (til dæmis með því að reka puttann í kok sér), notast við laxerandi hægðarlyf, stólpípur, megrunarpillur, stundar mikla líkamsrækt eða föstur - eða annað þessu líkt — til að minnka magn hitaeininga. Einnig tyggja sumir sjúklingar aðeins matinn og spýta honum svo út úr sér.

Orsakir sjúkdómsins breyta

Talið er að orsakir lotugræðgi séu að mestu leyti þær sömu og valda lystarstoli. Rétt eins og lystarstols-sjúklingar þá hafa þeir sem þjást af lotugræðgi mjög lágt sjálfsálit. Talið er að staðlaðar ímyndir fjölmiðla hafi mikil áhrif á þá, því að þeir eru, rétt eins og lystarstols-sjúklingar, afar uppteknir af þyngd sinni — og sjálfsmynd þeirra snýst mikils til eingöngu um líkamann og útlit hans. En öfugt við þá, sem þjást af lystarstoli, gera þeir sér oft grein fyrir því að hegðun þeirra er óeðlileg. Lotugræðgi-sjúklingar þjást oft einnig af öðrum sjúkdómum og rannsóknir hafa bent til þess að í fjölskyldum þeirra leynast oft aðrir geðsjúkdómar sem og áfengisneysla. Því telja sumir taugaboðefnið serótónín tengjast lystarstoli.

Helstu einkenni breyta

Eitt helsta einkenni lotugræðginnar er að sjúklingarnir hafa alls enga stjórn á neyslu sinni þegar köstin standa yfir. Lífsstíll þeirra er oftar en ekki algjörlega aðlagaður að átröskuninni. Þeir sem þjást af lotugræðgi reyna til dæmis að halda hegðun sinni leyndri, og vegna skammarinnar þá fylgir henni oft einmanakennd, þunglyndi og lítið sjálfsálit. Oft fela sjúklingar mat á ólíklegustu stöðum og koma sér upp forða sem þeir ætla sér síðan að nota þegar þeir taka átkast. Lotugræðgi-sjúklingar hafa jafnframt mikinn áhuga á því að tala um megrun og megrunartengt efni.

Þeir einir eru greindir með lotugræðgi sem taka regluleg átköst og sýna af sér slíka hegðan að minnsta kosti tvisvar í viku, þrjá mánuði í röð. Ekki er hægt að þjást bæði af lystarstoli og lotugræðgi. Ef sjúklingur greinist með lotugræðgi og lystarstol þá fær hann greininguna „Lystarstol með einkennum átkasta“.

Talið er að um 0,5 – 2% unglingsstúlkna og ungra kvenna uppfylli greiningarviðmið lotugræðgi. Algengast er að sjúkdómurinn komi fram á miðjum unglingsaldri. Afskaplega sjaldgæft er að lotugræðgi finnist hjá karlmönnum. Undanfari lotugræðgi er oft megrun og þeir sem þjást af lotugræðgi eru oft meðalþungir eða rétt yfir meðalþyngd.

Þeir, sem þjást af lotugræðgi, svelta sig stundum milli þess sem þeir taka átköst og því getur lotugræðgi leitt til dauða, jafnvel þó að það sé mun ólíklegra en þjáist sjúklingur af lystarstoli.

Meðferð breyta

Meferð við lotugræðgi beinist vanalega að því að rjúfa tengslin milli átkasta og föstu. Auk þess hafa þunglyndislyf verið notuð og lyfin, ásamt sálfræðimeðferð, hafa oft gefið góða raun. Hugræn atferlismeðferð virðist vera gagnlegasta sálfræðimeðferðin við lotugræðgi og niðurstöður benda til þess að langtímaáhrifa hennar gæti hjá um helmingi sjúklinga og að hún gagnist a.m.k. að einhverju leyti hjá þeim sem eftir eru.

Tengt efni breyta

Tenglar breyta

  • „Hvað er lotugræðgi og hvað orsakar hana?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað eru átröskunarsjúkdómar?“. Vísindavefurinn.
  • „Átröskun og íþróttir“. Sótt 15. desember 2005.