Lorenzo de' Medici

(Endurbeint frá Lorenzo de'Medici)

Lorenzo de' Medici (1. janúar 1449 – 8. apríl 1492)[1], kallaður Lorenzo hinn mikilfenglegi (Lorenzo il Magnifico), var ítalskur höfðingi og aðalsmaður sem réði í reynd yfir borgríkinu Flórens á fimmtándu öld. Hann var einn voldugasti og auðugasti velgjörðamaður listamanna endurreisnartímabilsins á Ítalíu.[2][3][4] Lorenzo var samningamaður, kaupmaður, stjórnmálamaður og velgjörðamaður listmálara, ljóðskálda og fræðimanna. Hann er einna helst þekktur fyrir að veita listamönnum á borð við Botticelli og Michelangelo styrk sinn. Lorenzo viðhélt valdajafnvægi innan ítalska bandalagsins, bandalagi ítalskra borgríkja sem tókst að koma á stöðugleika á Ítalíuskaga í marga áratugi. Ævi Lorenzos spannaði hápunkt ítölsku endurreisnarinnar og gullöld Flórensborgar.[5] Eftir að Lorenzo lést lauk friðnum á milli ítölsku borgríkjanna sem komið hafði verið á í Lodi árið 1454. Lorenzo er grafinn í Medici-kirkjunni í Flórens.

Skjaldarmerki Medici-ætt Lávarður Flórens
Medici-ætt
Lorenzo de' Medici
Lorenzo de' Medici
Ríkisár 2. desember 1469 – 8. apríl 1492
SkírnarnafnLorenzo di Piero de' Medici
Fæddur1. janúar 1449
 Flórens, lýðveldinu Flórens
Dáinn8. apríl 1492 (43 ára)
 Careggi, lýðveldinu Flórens
GröfMedici-kirkjunni í Flórens
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Piero di Cosimo de' Medici
Móðir Lucrezia Tornabuoni
EiginkonaClarice Orsini
BörnLucrezia de' Medici
Piero de' Medici
Maddalena de' Medici
Contessina Beatrice de' Medici
Giovanni de' Medici
Luisa de' Medici
Contessina de' Medici
Giuliano de' Medici, hertogi af Nemours

Æviágrip

breyta

Lorenzo de' Medici var þriðja barn og elsti sonur Piero di Cosimo de’ Medici og Lucreziu Tornabuoni, og sonarsonur Cosimo de' Medici, sem hafði stutt við menningar- og menntalíf Flórensborgar á ævi sinni.[6] Ásamt bróður sínum, Giuliano di Piero de’ Medici, hlaut Lorenzo menntun í húmanískum anda til að undirbúa hann fyrir stjórn Flórensborgar. Fyrir menntun bræðranna stóðu biskupinn og erindrekinn Gentile de' Becchi, heimspekingurinn Marsilio Ficino,[7] og grískukennarinn Johannes Argyropoulos.[8]

Lávarður Flórens

breyta

Eftir að faðir hans dó árið 1469 gerðist Lorenzo drottnari Flórensborgar, sem var á þessum tíma voldugasta ríki á Ítalíuskaga, ásamt bróður sínum, til ársins 1478. Það ár reyndu keppinautar Lorenzos að steypa Medici-ættinni af stóli með hjálp páfans Sixtusar 4., og gerðu tilraun til að myrða bræðurna. Lorenzo lifði tilræðið af en Giulano beið bana. Lorenzo réð þaðan af einn yfir Flórens til dauðadags árið 1492. Höggmyndirnar á gröf hans í San Lorenzo-kirkjunni eru eftir Michelangelo.

Lorenzo var mikill listunnandi og styrkti marga helstu listamenn endurreisnarinnar. Michelangelo var í innsta hring hjá Lorenzo og varð fyrir innblástri af fornum höggmyndum sem Lorenzo átti í hirslu sinni. Leonardo da Vinci naut einnig stuðnings Lorenzos.

Macchiavelli kallaði Lorenzo de' Medici „mesta stuðningsmann bókmennta og lista allra tíma“. Tveir synir Lorenzos urðu síðar páfar. Annar sonur hans, Leó, tók sér páfanafnið Leó 10., og fóstursonur hans, Giulio (sem var óskilgetinn sonur bróður Lorenzos), tók sér nafnið Klemens 7. sem páfi.

Á valdatíð Lorenzos fór mjög að halla á auðævi Medici-ættarinnar í hirslum þeirra í Medici-bankanum. Á valdatíð sonar Lorenzos var bankinn lagður niður.

Heimildir

breyta
  • Emmy Cremer: Lorenzo de’ Medici. Staatsmann, Mäzen, Dichter. Klostermann, Frankfurt am Main 1970.
  • Lauro Martines: Die Verschwörung. Aufstieg und Fall der Medici im Florenz der Renaissance. Primus, Darmstadt 2004.
  • Volker Reinhardt: Die Medici. Florenz im Zeitalter der Renaissance. C. H. Beck, München 1998.
  • Ingeborg Walter: Der Prächtige. Lorenzo de’ Medici und seine Zeit. C. H. Beck, München 2003.

Tilvísanir

breyta
  1. Picotti, Giovanni Battista (1934). Medici, Lorenzo de', detto il Magnifico. Sótt 18. september 2018.
  2. Parks, Tim (2008). Medici Money: Banking, Metaphysics, and Art in Fifteenth-Century Florence. New York: W.W. Norton & Co. bls. 288. doi:10.1111/j.1467-8357.2005.00614.x.
  3. „Fact about Lorenzo de' Medici“. 100 Leaders in world history. Kenneth E. Behring. 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2014. Sótt 18. september 2018.
  4. Kent, F. W. (28. desember 2006). Lorenzo De' Medici and the Art of Magnificence. USA: JHU Press. bls. 248. doi:10.1086/586785. JSTOR 43445687.
  5. Brucker, Gene (21. mars 2005). Living on the Edge in Leonardo's Florence. Berkeley: University of California Press. bls. 14–15. doi:10.1177/02656914080380030604. JSTOR 10.1525/j.ctt1ppkqw.
  6. Hugh Ross Williamson, Lorenzo the Magnificent, Michael Joseph, (1974).
  7. Hugh Ross Williamson, p. 67
  8. Durant, Will (1953). The Renaissance. The Story of Civilization. 5. árgangur. New York: Simon and Schuster. bls. 110.