Les Géants pétrifiés

Les Géants pétrifiés (Íslenska Steinrisarnir) er fyrsta bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2006. Höfundur sögunnar er Fabien Wehlmann en Yoann teiknaði. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.

Söguþráður

breyta

Svalur og Valur eru við fornleifarannsóknir í Miðjarðarhafinu ásamt dvergvaxna og nærsýna vísindamanninum Martin. Þeir finna gripi sem benda til forsögulegrar menningar frá Kyrrahafinu, sem Martin tengir strax við goðsagnir um sokkið meginland milli Asíu og Ameríku.

Uppgötvunin vekur áhuga hins ófyrirleitna og vellríka fornleifafræðings Callaways sem baðar sig í sviðsljósi fjölmiðla og hugsar fremur um að selja söfnurum fornminjar fyrir stórfé en að sinna vísindunum. Valur heillast af frægð Callaways og gullfallegum einkaritara hans og slæst í för með þeim í æsilegu kapphlaupi við Sval og Martin um hverjir finni fyrst leifar þessarar týndu menningar.

Svalur og Martin kynnast Thian, ungri fornleifafræðistúdínu frá Indónesíu. Saman rekast þau á nokkra hvatvísa unga Maóra sem segja þeim ævaforna þjóðsögu um veg til neðarsjávarborgarinnar Kauwheke Rae, sem varin sé af risastórum skrímslum.

Callaway kemst einnig á slóðina og tekst í krafti auðs síns að fá einkaleyfi til að leita fornminja á landgrunninu. Hann umgengst þær af virðingarleysi og spillir minjum við að fjarlægja styttur til að selja auðkýfingum. Á sama tíma leita Svalur, Martin og Thian á enn meira dýpi og uppgötva sjálfa neðansjávarborgina. Skrímslin reynast forsögulegar neðansjávarrisaeðlur sem elta félagana. Þau koma til lands í miðju forngripauppboði Callaways. Skrímslin sökkva dýrmætri snekkju hans og gestirnir eiga fótum fjör að launa. Martin bjargar aðstoðarkonunni ægifögru og hún verður þegar ástfangin af honum. Sögunni lýkur á að Callaway hrökklast á brott með skottið á milli lappanna en Thian sér fram á mikla vinnu við fornleifarannsóknir.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Sagan er sú fyrsta í hliðarsagnaflokknum um ævintýri Svals og Vals. Þeim Yoann og Wehlmann þótti takast svo vel upp að þeir voru fáeinum árum síðar gerðir að aðalhöfundum Svals og Vals. 
  • Kafbátur Sveppagreifans úr Svamlað í söltum sjó kemur mjög við sögu í ævintýrinu.
  • Maórunum í sögunni verður tíðrætt um að kvikmyndirnar um Hringadróttinssögu hafi verið teknar upp á Nýja-Sjálandi. Slíkar samtímavísanir eru fátíðar í Svals & Vals-sagnaheiminum.
  • Fornleifafræðingurinn Martin kemur við sögu í Svals og Vals-bók nr. 54, Vikapiltur á vígaslóð. Hann er eina aukapersónan sem kynnt hefur verið til sögunnar í hliðarsagnaflokknum sem öðlast hefur framhaldslíf í aðalbókaflokknum.