Zorflónska (franska: Alerte aux Zorkons) er 51. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú fyrsta eftir höfundanna Yoann og Fabien Wehlmann. Hún var gefin út á bókarformi á frönsku árið 2010 eftir að hafa birst sama ár í teiknimyndablaðinu Sval hún kom út á íslensku árið 2021.

Söguþráður breyta

Sagan hefst á því að Zorglúbb brýst inn í rannsóknarstofu Sveppagreifans í óljósum erindagjörðum og dáleiðir greifann með hjálp geislatækis síns. Hálfum mánuði síðar berst Sval og Val neyðarkall frá Sveppagreifanum. Þeir halda strax til Sveppaborgar en komast að því að bærinn hefur verið settur í sóttkví af hernum.

Félagarnir sleppa fram hjá gæslumönnunum en við þeim blasir furðuleg náttúra með tröllauknum sveppum og háskalegum furðuskepnum. Þeir hitta Sveppagreifann sem hefur komið sér fyrir ásamt Lenu og Astrid, ungum sænskum vísindakonum. Greifinn útskýrir að einhverra hluta vegna sé lífríki svæðisins farið að þróast á margföldum hraða, þar sem dýra- og plöntutegundir stökkbreytist á fáeinum klukkustundum. Þau komast að þeirri niðurstöðu að hér hljóti Zorglúbb að vera að verki, en frétta þá sér til skelfingar að stjórnendur hersins ætli að varpa kjarnorkusprengju á Sveppaborg.

Hópurinn verður fyrir árás skaðræðisskepna sem eru árásargjarnar, en tröllheimskar enda án heila. Þeim tekst að flýja og nota sem farskjóta risaeðlu þá sem búsett er við höll Sveppagreifans og fjallað var um í bók þrettán, Le voyageur du Mésozoïque. Skaðræðisskepnurnar, Zorkónarnir, sem bókin dregur nafn sitt af, ráðast á hópinn en Zorglúbb kemur aðvífandi á farartæki sínu og bjargar þeim. Í sameiningu tekst þeim að afstýra kjarnorkuárásinni.

Í ljós kemur að Zorglúbb hafði komið af stað stökkbreytingunum þegar hann missti tilraunaglös í gólfið á tilraunastofu greifans. Saman tekst þeim að uppræta furðulífverurnar með því að dreifa móteitri. Áður en Sval og Val tekst að krefja Zorglúbb svara við því hvert erindi hans hefði verið í tilraunastofunni stingur hann af ásamt Lenu og Astrid og heldur til Tunglsins, þar sem næsti hluti sögunnar mun eiga sér stað.

Fróðleiksmolar breyta

  • Undir lok bókarinnar kemur fram að Sveppagreifanum hafi mistekist að uppræta allar stökkbreyttu lífverurnar, en ákveður að hafa ekki frekari áhyggjur af því að sinni.
  • Lena og Astrid fylgja Zorglúbb til Tunglsins í bókarlok. Lena og Astrid koma þó ekki við sögu í næstu bók, La Face cachée du Z, en þar kemur fram að þær hafi verið lesbíur og kvænst hver annarri. Er þetta fyrsta dæmið um tilvísun í samkynhneigð í bókaflokknum.

Íslensk útgáfa breyta

Bókin Zorflónska var gefin út af Froski útgáfu árið 2021 í íslenskri þýðingu Anítu K. Jónsson. Hún er merkt sem 54. bókin, þótt hún teljst sú 54. í opinberu ritröðinni á frönsku. Skýringin á misræminu liggur í að Froskur telur með nokkrar bækur með eldri sögum en opinbera röðin hefur að geyma.