Vikapiltur á vígaslóð

bók um Sval og Val frá árinu 2014

Vikapiltur á vígaslóð (franska: Le groom de Sniper Alley) er 54. Svals og Vals-bókin en sú fjórða eftir þá Fabien Wehlmann og teiknarann Yoann. Hún kom út á frummálinu árið 2014, en í íslenskri útgáfu ári síðar.

Söguþráður

breyta

Sagan hefst í hrjóstrugu landslagi í eyðimerkurríkinu Aswana, sem er tilbúið land í Miðausturlöndum. Fyrrum einræðisherra fer huldu höfði, en er sprengdur í loft upp í flugskeytaárás. Næst er litið inn í rammgert bandarískt öryggisfangelsi, Forréttindafangi sinnir þar fræðagrúski og gerir mikla uppgötvun. Hann hringir þegar í frænda sinn.

Loks víkur sögunni af þeim Sval og Val sem hlusta á fréttir af stríðslokunum í Aswana. Skyndilega birtist Don Vito Cortizone í stofunni með mafíósum sínum. Frændinn í fangelsinu hefur komist á snoðir um að hinn goðsagnakenndi fjársjóður Alexandríu sé falinn í Aswana. Hann þvingar Sval og Val til að leita fjársjóðsins í þakkarskyni fyrir að hafa komið Sval til bjargar í fyrri bók, Dans les Griffes de la Vipère.

Í Aswana kemur í ljós að allt tal um frið er uppspuni fjölmiðla. Landið er í heljargreipum borgarastyrjaldar og Svalur kemst í hann krappann á götunni Vígaslóð (Sniper Alley) þar sem hópur leyniskytta skýtur á allt kvikt. Tuddi trukkur (Bruno), sem talinn hafði verið af í lok bókarinnar La Face cachée du Z kemur honum þó til bjargar. Hann reynist á launaskrá Vitos Cortizones og sendur til að aðstoða félagana.

Svalur og Valur hitta fyrir fulltrúa vestræna hersetuliðsins sem heldur sig í einangrun frá heimamönnum og þora ekki út til fjöldans. Félagarnir eru hins vegar óttalausir og eignast góða vini meðal innfæddra, en öðlast um leið nöturlega innsýn í lífið í stríðshrjáðu landi. Eftir talsverðan barning komast Svalur, Valur og Tuddi trukkur á áfangastað. Þar þurfa þeir þó að leysa ótal þrautir til að sleppa við gildrur sem settar voru upp til að verja fjársjóðinn. Njóta þeir aðstoðar Sveppagreifans og nokkurra annarra vísindamanna, þar á meðal hins smávaxna Martins úr Les Géants pétrifiés sem þeir ræða við í gegnum talstöð.

Toddi trukkur sturlast vegna ofskynjunarsveppa og virðist bíða bana, en Svalur og Valur ná að komast í gegnum þrautabrautina. Þeir uppgötva að fjársjóðurinn er hvorki meira né minna en afrit af bókasafninu glataða frá Alexandríu. Þeir ákveða hins vegar að þegja yfir þessari uppgötvun, að minnsta kosti á meðan vargöldin ríkir í Aswana og friða Don Vito Cortizone með því að láta hann fá nokkur fjársjóðskort. Þeir hitta frændann í öryggisfangelsinu sem grunar hvernig í öllu liggur og í þakklætisskyni fyrir erfiðið sýnir hann þeim ljósmynd. Bókinni lýkur á að Svalur og Valur stara furðulostnir á myndina sem sýnir þá sjálfa og gormdýrið innilokað í búri.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Stríðið í Aswana er lítt dulbúin vísun í Íraksstríðið. Sagan er því ein af örfáum Svals og Vals-bókum sem fela í sér augljósa skírskotun til pólitískra samtímaviðburða.

Íslensk útgáfa

breyta

Bókin Vikapiltur á vígaslóð var gefin út af Froski útgáfu árið 2015 í íslenskri þýðingu Auðar S. Arndal. Hún er merkt sem 57. bókin, þótt hún teljst sú 54. í opinberu ritröðinni á frönsku. Skýringin á misræminu liggur í að Froskur telur með nokkrar bækur með eldri sögum en opinbera röðin hefur að geyma.