Laugavegur 11
Laugavegur 11 er stórt timburhús við Laugaveg í Reykjavík sem hýsir margs konar starfsemi. Þar var reist timburhús árið 1868, sem komst í eigu bræðranna og athafnamannanna Friðriks og Sturlu Jónssonar árið 1913. Reistu þeir núverandi hús á lóðinni um árið 1920.
Saga
breytaÍ húsinu við Laugaveg 11 hefur verið verslunar- og veitingarekstur alla tíð. Má þar nefna veitingastaðinn Fjallkonuna og um 1930 var þar kaffihús sem hét Kaffilindin. Á fjórða áratugnum var þar starfrækt veitingastofan White Star sem hafði á sér illt orð.
Árið 1936, skömmu eftir að White Star var lokað, birtist eftirfarandi lýsing á andrúmsloftinu þar: „Ófínast allra kaffihúsanna þótti White Star [...] Þangað komu innlendir og útlendir sjóarar sem þykja ófínir hjá betri borguruum. Og þangað komu illa launaðar vinnukonur úr fínu húsunum og formiddagsstúlkur af lakara tagi. Þar dönsuðu þær við sjóara í svælu og reyk, - og gerðu sig ánægðar með lífið ...“[1]
Eftir að White Star var lokað var verslunin Stálhúsgögn í húsnæðinu um langt skeið en um 1950 var innréttaður þar veitingastaður sem þekktur hefur orðið fyrir það að á 6. áratugnum var þar helsti samkomustaður ungra listamanna, skálda og menntamanna í Reykjavík. Staðurinn hét Adlon eins og fleiri veitingastaðir í eigu Silla og Valda en var aldrei kallaður annað en Laugavegur 11. Á meðal fastagesta þar má nefna Ástu Sigurðardóttur, Thor Vilhjálmsson, Geir Kristjánsson, Elías Mar, Alfreð Flóka, Jökul Jakobsson, Dag Sigurðarson, Þorstein frá Hamri og marga fleiri.
Veitingastofan hætti störfum upp úr 1960 og vefnaðarvörubúðin Vogue var opnuð í húsnæði hennar. Nokkru síðar, í maí 1963, skemmdist húsið mjög mikið í eldi. Þá voru alls 10 fyrirtæki starfandi í húsinu, þar á meðal Vogue, Skrifstofuvélar (síðar IBM á Íslandi) og ljósmyndastofa Jóns Kaldal, auk þess sem Jóhannes Geir listmálari hafði vinnustofu í húsinu. Í fyrstu var talið að húsið væri jafnvel ónýtt eftir brunann en síðar var ákveðið að endurbyggja það og var verslunin Vogue áfram í húsnæðinu þar sem veitingastaðurinn hafði verið fram eftir áttunda áratugnum.
Árið 1976 hófst veitingarekstur að nýju á Laugavegi 11 þegar þar var opnaður hamborgarastaðurinn Bixið en árið 1986 breyttist hann í veitingastað sem hét Greifinn af Monte Cristo. Í ársbyrjun 1988 var svo veitingastaðurinn Ítalía opnaður í húsnæðinu og hefur verið þar síðan.
Tilvitnanir
breytaHeimildir
breyta- Páll Líndal (1987). Reykjavík: Sögustaður við Sund H-P. Örn og Örlygur.
- „'Ölstofur og æsandi fjör'. Lesbók Morgunblaðsins, 13. júní 1987“.
- „Geysitjón í eldsvoða að Laugavegi 11. Morgunblaðið, 22. maí 1963“.