Silli og Valdi var matvöruverslanakeðja sem þeir Sigurliði Kristjánsson og Valdimar Þórðarson stofnuðu á Vesturgötu 52 í vesturbæ Reykjavíkur árið 1925. Árið 1927 hófu þeir verslunarrekstur í elsta húsi Reykjavíkur, Aðalstræti 10. Þeir voru umfangsmiklir í rekstri matvöruverslana um alla borgina næstu áratugi og byggðu meðal annars húsið Austurstræti 17 árin 1963-65 og verslunarmiðstöðina Glæsibæ í Álfheimum 1970. Sigurliði lést árið 1972 og var þá fyrirtækið, sem var einkafyrirtæki þeirra tveggja, tekið til arfskipta. Árið 1974 tók Sláturfélag Suðurlands yfir verslunarreksturinn í Glæsibæ og næstu ár voru aðrar verslanir seldar. Síðasta verslunin sem bar nafnið Silli og Valdi var lítil matvöruverslun á Háteigsvegi 2.

Kona Sigurliða, Helga Jónsdóttir, lést árið 1978 og var þá eigum þeirra, sem voru gríðarmiklar, ráðstafað til lista- og menningarmála í samræmi við óskir þeirra. Meðal þeirra sem fengu fjárupphæðir úr dánarbúinu voru Leikfélag Reykjavíkur, Íslenska óperan og Listasafn Íslands. Þá voru stofnaðir sjóðir kenndir við þau hjónin fyrir nemendur í raunvísindanámi og rannsóknir í læknisfræði. Valdimar Þórðarson lést árið 1981.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.