Hessen-Kassel
Hessen-Kassel var landgreifadæmi sem var hluti af Heilaga rómverska ríkinu frá 1567 til 1803. Landgreifadæmið varð til þegar Filippus 1. af Hessen, landgreifi af Hessen, lést og löndum hans var skipt milli sona hans. Elsti sonurinn, Vilhjálmur 4. af Hessen-Kassel fékk þann hluta sem innihélt borgina Kassel, auk helmings greifadæmisins, en hinir synirnir fengu hvor um sig Hessen-Marburg, Hessen-Rheinfels og Hessen-Darmstadt. Við þetta varð Kassel höfuðborg, en fram að því hafði Marburg verið höfuðstaður greifadæmisins Hessen.
Þegar Napóleon endurskipulagði keisaradæmið árið 1803 var landgreifinn af Hessen-Kassel gerður að kjörfursta. Kjörfurstadæmið Hessen var um skeið innlimað í Konungsríkið Vestfalíu, en var endurreist eftir Napóleonsstyrjaldirnar og varð hérað í Prússlandi eftir 1868. Greifafjölskyldan í Hessen-Kassel var lengi nátengd dönsku konungsfjölskyldunni.