Burt með harðstjórann!
Burt með harðstjórann! (franska: Le dictateur et le champignon) er sjöunda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1953-1954 og kom út á bókarformi árið 1956. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin, en Maurice Rosy var titlaður meðhöfundur. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst tíunda í röðinni í íslenska bókaflokknum.
Söguþráður
breytaSvalur og Valur heimsækja Sveppagreifann og gormdýrið. Gormurinn kemur höndum yfir nýjustu uppfinningu greifans, undraefnið metómól sem gerir málma mjúka sem smjör. Dýrið veldur miklum usla í Sveppaborg áður en tekst að fanga það. Félagarnir komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að koma gormdýrinu aftur til síns heima í frumskógum Palombíu.
Eftir viðburðaríka siglingu komast þeir til Palombíu og uppgötva að landið er undir járnhæl herforingjastjórnar. Leiðtogi hennar er Sammi frændi Vals, sem áður hafði komið við sögu í Baráttunni um arfinn. Hann hvetur félagana til þess að ganga til liðs við stjórn sína og upplýsir um þau áform sín að ráðast á nágrannaríkið. Svalur og Valur hafna fyrst tilboðinu en þykjast svo skipta um skoðun í þeirri von að geta afstýrt styrjöldinni.
Njósnarar Samma frænda fylgjast með hverju fótmáli Svals og Vals, sem hafa nú verið skipaðir herforingjar í Palombíuher. Þeim tekst þó að senda skilaboð til Sveppagreifans með milligöngu blaðakonunnar Bitlu. Með metómóli greifans tekst þeim á síðustu stundu að eyðileggja vopnabúr hersins og sigra Samma frænda. Þeir kveðja gormdýrið, en í bókarlok er sterklega gefið í skyn að dýrið fylgi þeim aftur til baka.
Fróðleiksmolar
breyta- Í bókinni kemur sterkt fram hernaðarandstaða Franquins, sem skýtur oft upp kollinum í verkum hans. Sagan er skrifuð undir sterkum áhrifum frá kvikmyndinni Einræðisherrann eftir Charlie Chaplin.
- Sammi frændi kemur við sögu í annað sinn í bókaflokknum. Hann er siðblint illmenni, þrátt fyrir að hafa í lok Baráttunnar um arfinn séð að sér og ákveðið að snúa baki við illvirkjum. Franquin taldi sjálfur að þessi viðsnúningur á persónunni væri ljóður á bókaflokknum.
- Bitla kemur við sögu aðra bókina í röð, en hún birtist fyrst í La corne de rhinocéros.
- Vísindamennirnir Durtur og Surtur (franska: Schwartz og Black) aðstoða Sveppagreifann við að þróa metómólið. Þeir koma einnig við sögu í Le voyageur du Mésozoïque.
Íslensk útgáfa
breytaBurt með harðstjórann! var gefinn út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var tíunda bókin í íslensku ritröðinni.