La Grosse tête (Stórhöfði) er áttunda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2015. Höfundar sögunnar eru Makyo og Toldac en listamaðurinn Tehem teiknaði.

Söguþráður breyta

Valur sendir frá sér bók um ævintýri þeirra Svals, en gerir sinn hlut í atburðarásinni stærri en efni stóðu til, sem veldur togstreitu þeirra á milli. Ekki bætir úr skák að bókin selst lítið sem ekkert, sem veldur Val sárum vonbrigðum.

Meðan á þessu stendur rænir herinn völdum í Bretzelburg og Lárus konungur og Bogga prinsessa, þjóðhöfðingi grannríkisins Makabasta (sjá: Neyðarkall frá Bretzelborg) eru sett af. Blaðakonan Bitla ákveður að efna til fjársöfnunar fyrir flóttamenn frá Bretzelborg. Svalur og Valur setja upp leikritog fá góða dóma. Í kjölfarið heimsækja þeir flóttamannabúðir Bretzelborgara og heyra um kúgunina í landinu, sem einkum felst í skefjalausu pylsuáti.


Kvikmyndaframleiðandi ákveður að koma á hvíta tjaldið bók Vals, sem byggð er á ævintýrinu úr La mauvaise tête og eru félagarnir ráðnir sem leikarar. Handritinu er þó breytt á þann hátt að Svalur verður aðalstjarnan og öðlast heimsfrægð og lifir í vellystingum en Valur verður sífellt bitrari.

Ákveðið er að ráðast í gerð framhaldsmyndar eftir sögunni Fanginn í styttunni, en af fjárhagslegum ástæðum er ákveðið að taka hana upp í Bretzelborg. Uppreisnarmenn ræna Sval og Val meðan á tökum stendur og þeir ákveða að ganga til liðs við uppreisnina með aðstoð Bitlu. Þeim tekst að brjóta herinn á bak aftur með hjálp töfralyfs frá Sveppagreifanum sem þeir byrla í matarskammt hermannanna og Lárus og Bogga taka aftur við valdataumunum.

Fróðleiksmolar breyta

  • Sagan er full af vísunum í fyrri sögur bókaflokksins, einkum þó Neyðarkall frá Bretzelborg og La mauvaise tête.
  • Sagan einkennist af mikilli togstreitu milli Svals og Vals, ekki síst eftir að Svalur verður unnusti frægrar sjónvarpskonu sem Valur var hugfanginn af.