Fanginn í styttunni

bók um Sval og Val frá árinu 1960

Fanginn í styttunni (franska: Le Prisonnier du Bouddha) er 14. Svals og Vals-bókin og teiknuð af listamanninum Franquin, en Greg er skráður höfundur. Hún kom út á frönsku árið 1960, en sagan birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval 1958-59.

Söguþráður

breyta

Svalur og Valur heimsækja Sveppagreifann sem hegðar sér undarlega. Í ljós kemur að hjá honum dvelst sovéskur vísindamaður, Ínofskéff, sem fundið hefur upp undratækið Göggu sem getur m.a. látið hluti svífa, jurtir spretta ógnarhratt og breytt veðrinu. Þeir óttast að tækið geti reynst stórhættulegt falli það í hendur herja stórveldanna.

Óttinn reynist ekki ástæðulaus. Sovéskir leyniþjónustumenn reyna sitt besta til að stela tækinu, án árangurs. Fram kemur þá að vinur Ínofskéffs, Bandaríkjamaðurinn Longplaying sé fangi Kínverja. Félagarnir halda þegar í austurveg til að frelsa hann áður en kínverski herinn nær að þvinga fram leyndarmál tækisins.

Svalur og Valur komast með erfiðismunum inn fyrir kínversku landamærin og að risavöxnu Búdda-líkneskjunum þar sem Longplaying er haldið föngnum. Á leiðinni kemur Gormdýrið þeim til bjargar á hættustund. Þeir frelsa vísindamanninn og saman sleppa þeir naumlega undan Kínverjunum. Sögunni lýkur á að Ínofskéff sendir nýafhjúpaða styttu af borgarstjóra Sveppaborgar á braut um Jörðu.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Sovétríkin sendu fyrsta gervihnöttinn, Spútnik 1, á braut um Jörðu árið 1957 og eru afdrif borgarstjórastyttunnar vísun í þann atburð.
  • Franquin hafði Mogao-hellana í Dunhuang-héraði í Kína sem fyrirmynd að Búddahofs-fangelsinu í sögunni.
  • Listamaðurinn Greg er skráður handritshöfundur bókarinnar. Hann starfaði með mörgum helstu teiknimyndasagnahöfundum síns tíma og samdi m.a. handritið af Tinna-bókinni Hákarlavatninu.
  • Söguþráður Fangans í styttunni er stef sem margoft hefur verið endurtekið í sögunum um Sval og Val: snjall en hjartahreinn vísindamaður þróar snjalla uppfinningu sem gæti reynst háskaleg í höndum illra manna.

Íslensk útgáfa

breyta

Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1981 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Hún er númer tólf í íslensku ritröðinni.