Kristján Kristjánsson (f. 1806)

Kristján Kristjánsson (Chr. Christiansson) (f. 21. september 1806 á Þórðarstöðum í Fnjóskadal, d. 13. maí 1882) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Kristján var sýslumaður og amtmaður í Norður- og austuramti.

Fjölskylda

breyta

Foreldrar Kristjáns voru Kristján Jónsson (f. 1771, d. 1844) bóndi á Illugastöðum í Fnjóskadal og kona hans Guðrún Halldórsdóttir. Kristján Kristjánnson var bróðir Benedikts Kristjánssonar alþingismanns og Jóns Kristjánssonar alþingismanns. Árið 1845 giftist Kristján Ragnheiði Jónsdóttur Thorstensen, (f. 1824, d. 1897), dóttir Jón Thorstensen alþingismanns og landlæknis. Þau áttu engin börn.

Menntun og embættisstörf

breyta

Kristján lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla árið 1826. Að stúdentsprófi loknu (árin 1826—1830) starfaði Kristján sem skrifari hjá Grími Jónssyni amtmanni á Möðruvöllum. Kristján sigldi þá til Danmerkur þar sem hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla árið 1838. Með námi og að því loknu (árin 1833-1840) starfaði Kristján í rentukammerinu í Kaupmannahöfn. Eftir heimkomu starfaði hann sem skrifari embættismannanefndarinnar í Reykjavík 1841 og sem málaflutningsmaður í Reykjavík 1841—1843.

Árið 1843 var Kristján settur land- og bæjarfógeti í Reykjavík og sinnti því starfi árin 1843-1844. Hann var settur sýslumaður í Skaftafellssýslu 1844 en var skipaður í embættið 1845 og gegndi því til 1848. Árið 1848 var Kristján skipaður dómsmálaritari og 2. yfirdómari í landsyfirréttinum en tók ekki við því embætti fyrr en næsta sumar. Árið 1849 var hann skipaður land- og bæjarfógeti í Reykjavík en gegndi jafnframt áfram embætti yfirdómara þangað til Jón Pétursson tók við því sumarið 1850.

Kristjáni var vikið frá embætti 28. september 1851 vegna framkomu sinnar á þjóðfundinum en gegndi því þó fram í marsmánuð 1852. Ástæða brottvikningarinnar var sú að Kristján þótti „þjóðhollari maður en góðu hófi þótti gegna hjá konunglegum embættismönnum í þá tíð“ eins og sagði í Norðanfara.[1]

Árið 1852 fór Kristján utan og varð fulltrúi í hinni íslensku stjórnardeild í Kaupmannahöfn. Árið 1854 var Kristján skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, 1860 skipaður sýslumaður í Húnavatnssýslu. Árið 1871 var Kristján skipaður amtmaður í Norður- og austuramtinu. Kristján fékk lausn frá störfum 1881 sökum aldurs.

Þingseta

breyta

Kristján sat á þingi sem aðstoðarmaður Bardenfleth konungsfulltrúa árið 1847 og sem konungkjörinn þingmaður árið 1849. Kristján var fulltrúi á Þjóðfundinum 1851, og var þá varaforseti fundarins.

Eftirmæli

breyta

Í Norðanfara var Kristjáni lýst þannig:

Gestrisni hans og örlæti er alkunnugt, kom örlætið fram í stórbyggingum, er hann reisti hvervetna, par sem hann bjó, og i gjöfum stærri og smærri og styrk, sem hann veitti ungum mönnum til menntunar. Mörg börn föstruðu þau hjón frá æsku til fullorðins ára. Engan mann þótti skemmtilegra heim að sækja. Hann var svo frábærlega skemmtilegur í viðræðum, fyndinn og gamansamur, en gamanið þó jafnan græskulaust. — Hann virti kristin trúarbrögð og hafði mætur á Guðs orði.[2]

Heimildir

breyta

Æviágrip Kristjáns Kristjánssonar á vef Alþingis
Magnús Stephensen, Lögfræðingatal, Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 3 árg. (1882), bls. 237-238.

Tilvísanir

breyta
  1. Minningargrein um Kristján Kristjánsson, Norðanfari, 23-24. tbl. 21. árg. (21. júní 1882), bls. 45.
  2. Minningargrein um Kristján Kristjánsson, Norðanfari, 23-24. tbl. 21. árg. (21. júní 1882), bls. 45.