Koltunguvirkjun
Koltunguvirkjun er vatnsaflsvirkjun inn af bænum Þorvaldseyri. Hún var byggð árið 1928 og var framleiðslugeta þá 12 kw sem dugði til lýsingar í íbúðarhúsi og fjósi og að hluta til upphitunar. Við Heklugos árið 1947 barst mikið af vikri og ösku fram yfir Eyjafjöll og barst mikið af vikri með vatninu inn í rörin og skemmdi túrbínuhjólin. Á einni viku eyddust skóflurnar upp og göt komu á túrbínuhúsið. Skipta varð um skóflur og varð hlé á rafmagnsframleiðslu í nokkra mánuði. Árið 1960 var stöðvarhús virkjunarinnar stækkað og nýrri túrbínu bætt við. Árið 1964 var rafmagn leitt um sveitina frá Sogsvirkjun og var þá heimarafmagnið í nokkur ár eingöngu notað til upphitunar á íbúðarhúsi. Þegar sá möguleiki opnaðist árið 2000 að bændur gætu selt rafmagn inn á dreifikerfi Rarik þá var virkjunin byggð upp að nýju með nýjum rafal en sömu túrbínum. Virkjunin framleiddi þá 18 kw. Við eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 sem hófst 14. apríl lagðist mikil aska yfir Svarðdælisheiði og fylltust lækjarfarvegir af ösku. Uppistöðulón virkjunarinnar fylltist af ösku og aska settist í inntaksmannvirki og rör. Ennþá (2013) berst mikið af ösku með vatninu og hefur virkjunin ekki verið gangsett að nýju.