Knattspyrnufélagið 1949

Knattspyrnufélagið 1949 eða K-49 var reykvískt íþróttafélag sem stofnað var 5. júlí 1949. Félagið hóf þegar æfingar í knattspyrnu og handknattleik og fékk aðild að ÍSÍ en starfsemin lognaðist útaf á árinu 1950.

Mikil gerjun var í félagsmálum reykvískra knattspyrnumanna árið 1949. Þrjú ný félög fengu aðild að Íþróttabandalagi Reykjavíkur: K-49, Skandinavisk boldklub og Knattspyrnufélagið Þróttur, aðeins það síðastnefnda reyndist þó lífvænlegt.

Hópur ungra knattspyrnumanna stofnaði K-49 og fóru æfingar félagsins einkum fram á Háskólavellinum. Kjörin var bráðabirgðastjórn og var formaður valinn Ingjaldur Kjartansson.[1] Hann hafði numið hárskeraiðn í Kaupmannahöfn fyrir heimsstyrjöldina og á þeim tíma leikið knattspyrnu með KFUM Boldklub sem hafnaði í þriðja sæti í Danmerkurkeppninni árið 1938. Ingjaldur hafði einnig verið félagsmaður í Val.[2] Í árslok 1949 var formleg stjórn kjörin og tók þá Kristján Hoffmann við formennskunni.[3]

Þjálfari K-49 var Ove Jörgensen, danskur maður sem leikið hafði knattspyrnu með góðum árangri í heimalandi sínu.[4]

Þótt knattspyrna væri aðalíþróttagrein félagsins æfði það líka handbolta og tók þátt í Reykjavíkurmóti haustið 1949.

Búningur

breyta

Búningur félagsins var hvítur bolur með blárri rönd 10 cm. breiðri þvert yfir brjóst og bak. Merki félagsins á brjósti. Blátt hálsmál og blá rönd framan á ermum. Buxur bláar. Sokkar hvítir með bláum þverröndum.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. „Þjóðviljinn 6. júlí 1949“.
  2. „Morgunblaðið 2. október 2005“.
  3. „Vísir 6. janúar 1950“.
  4. „Þjóðviljinn 9. ágúst 1949“.
  5. „Alþýðumaðurinn 22. nóvember 1949“.