Kleópatra Selena 1.
Kleópatra Selena 1. (gríska: η Κλεοπάτρα Σελήνη; um 130 f.Kr. – 69 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins og síðar drottning Selevkídaríkisins. Hún giftist fjórum konungum; Ptólemajosi 9. af Egyptalandi, og Antíokkosi 8., Antíokkosi 9. og Antíokkosi 10. af Sýrlandi.
Upphaflega hét hún aðeins Selena. Móðir hennar, Kleópatra 3., neyddi Ptólemajos 9. til að skilja við Kleópötru 4. og giftast Selenu í staðinn. Þá tók hún upp nafnið Kleópatra. Með honum átti hún að minnsta kosti dótturina Bereníku 3. og hugsanlega tvo syni, en þeir eru þó oftar taldir óskilgetnir.
Árið 107 f.Kr. hrakti Kleópatra 3. Ptólemajos 9. frá völdum og gerði bróður hans að konungi. Hann flúði þá frá konu sinni og börnum til Kýpur og reyndi þar að koma upp her til að taka Egyptaland aftur. Í Sýrlandi börðust bræðurnir Antíokkos 8. og Antíokkos 9. um völdin. Kleópatra gerði bandalag við Antíokkos 8. og gaf honum Kleópötru Selenu fyrir eiginkonu. Hann hafði áður verið giftur eldri systur hennar Trýfaínu. Þegar Antíokkos 8. var drepinn í Antíokkíu árið 96 f.Kr. tók Antíokkos 9. sér Kleópötru Selenu fyrir eiginkonu.
Antíokkos 9. varð ekki langlífur á valdastóli. Hann féll árið 95 f.Kr. í orrustu gegn elsta syni Antíokkosar 8., Selevkosi 6. Sonur Antíokkosar 9. og Kleópötru 4., Antíokkos 10., náði völdum af Selevkosi og giftist síðan stjúpmóður sinni. Hún bar honum tvo syni; Antíokkos 13. og Selevkos 7. Eftir að Antíokkos var drepinn í orrustu flúði hún til Kilikíu.
Þegar Ptólemajos 11. var drepinn af æstum múg í Alexandríu árið 80 f.Kr. var hún eini eftirlifandi lögmæti erfingi Ptólemajaveldisins. Hún gerði þá tilkall til hásætisins fyrir hönd sona hennar og Antíokkosar 10. en íbúar Alexandríu kusu sér hinn óskilgetna Ptólemajos 12. fyrir konung. Kleópatra sendi syni sína til Rómar til að flytja mál sitt fyrir öldungaráðinu en án árangurs.
Þegar armenski konungurinn Tígranes mikli hóf að leggja Litlu-Asíu undir sig ákváðu íbúar Sýrlands að bjóða honum hásæti Selevkídanna þar sem þeir voru orðnir þreyttir á eilífum borgarastyrjöldum milli erfingja krúnunnar. Tígranes lagði undir sig síðustu leifar Selevkídaríkisins en nokkrar borgir í suðurhluta landsins voru trúar Selevkosi. Hann náði Kleópötru Selenu á sitt vald í borginni Akkó árið 69 f.Kr. og lét taka hana af lífi. Selevkos ríkti sem útlagakonungur og giftist síðan Bereníku 4. sem lét kyrkja hann til bana.