Varnarlið Íslands

Varnarlið Íslandsensku: Iceland Defense Force) var herafli innan Bandaríkjahers sem starfaði frá 1951 til 2006. Varnarliðið var skipað að beiðni Atlantshafsbandalagsins eftir undirritun Varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna 5. maí 1951.

Loftvarnarherinn frá Hawaii í Keflavík 2006.
Merki Varnarliðsins.

Höfuðstöðvar Varnarliðsins voru Keflavíkurstöðin á Miðnesheiði á Suðurnesjum. Yfirmaður Varnarliðsins var varaaðmíráll í Bandaríkjaflota með hlutverk yfirmanns flugsveitar flotans í Keflavík. Yfir 25 ólíkar herdeildir störfuðu innan Varnarliðsins en kjarni þess kom úr Atlantshafsflugsveit Bandaríkjaflota, Naval Air Force Atlantic, með höfuðstöðvar í Norfolk í Virginíu.

Varnarliðið var hluti af Atlantshafsherafla Bandaríkjanna til 1999 þegar Sameinaður herafli Bandaríkjanna tók við. Frá 2002 til 2006, þegar Varnarliðið var leyst upp, heyrði það til Evrópuherafla Bandaríkjanna.

Varnarlið Íslands taldi að jafnaði um 1350 bandaríska hermenn, um 100 borgaralega starfsmenn Bandaríska varnarmálaráðuneytisins og 650 íslenska starfsmenn. Loftvarnir voru í höndum 85. flugfylkis sem hafði yfir að ráða orrustuflugvélum og ratsjárflugvél. Þyrlusveit 85. flugfylkis gat sér lengi gott orð við björgunarstörf.

Varnarliðið var mjög umdeilt allan þann tíma sem það dvaldi á Íslandi. Samtök hernámsandstæðinga og Samtök herstöðvaandstæðinga voru fjöldahreyfingar sem stofnaðar voru til þess að vinna að brottför hins erlenda hers og úrsögn landsins úr NATO. Í þeim tilgangi var farið í Keflavíkurgöngur og staðið að fjöldafundum og ýmsum aðgerðum öðrum víða um land.

Varnarlið Íslands var leyst upp 28. júní 2006 og Keflavíkurstöðin var afhent íslenskum yfirvöldum í september sama ár.

  Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.