Karl Gústaf Stefánsson

Karl Gústaf Stefánsson (eða Karl Gustaf Stefanson eða Karl G. Thorson eða Charles Thorson) (29. ágúst 18907. ágúst 1966) var íslensk-kanadískur skopmyndateiknari og starfaði lengi hjá Walt Disney. Hann myndskreytti einnig margar barnabækur.

Charles Thorson, eða Karl Gústaf Stefánsson.

Karl var Vestur-Íslendingur, skírður Karl Gústaf Stefánsson. Foreldrar hans voru Stefán Þórðarson (Stephen Thorson) Jónssonar frá Bryggju í Biskupstungum, sem flutti vestur um haf 1886, og Sigríður Þórarinsdóttir frá Ásakoti í Biskupstungum. Bróðir Charles var Joseph Thorson, fyrrverandi dómari, forseti hæstaréttar og ráðherra í Ottawa.

Karl hóf störf hjá Walt Disney í Hollywood árið 1934. Hjá þeim vann hann að mörgum teiknimyndum, meðal annars að myndinni: Mjallhvít og dvergarnir sjö. Meðan hann starfaði hjá Walt Disney teiknaði hann margar „dýrapersónur“. Sú frægasta þeirra er Kalli kanína (Bugs Bunny). Karl starfaði einnig fyrir Metro Goldwyn Mayer, Warner Brothers o.fl. Á þessum árum skapaði Karl fleiri en 100 teiknimyndapersónur, m.a. fílinn Elmer, tígrisdýrið Tilly, Indíánadrenginn Hiawatha og elginn Sniffles.

Í bók Haralds Bessasonar: Dagstund á Fort Garry, sem kom út 2007, segir frá því þegar Karl Gústaf sagði upp hjá Walt Disney vegna ágreinings:

Enda þótt Karl Gústaf væri allajafna friðarins maður hafði hann dálæti á Íslendingasögum, einkum Egils sögu Skallagrímssonar. Verður lengi í minnum haft að inni í miðri Hollywood reisti hann verkstjóra sínum, Walt Disney, níðstöng með viðeigandi kveðskap áföstum. Sama dag voru þeir skildir að skiptum, verkstjórinn og listamaðurinn, en andi skáldsins frá Borg á Mýrum sat sem fastast eftir í sjálfri höfuðborg kvikmyndanna. [1]

Tilvísanir

breyta
  1. Dagstund á Fort Garry; Haraldur Bessason; Ormstunga, 2007, bls. 127-8

Tenglar

breyta

erlendir

   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.