Kalkofn er ofn sem notaður var til að vinna kalsíumoxíð úr kalksteini. Kalkofnsvegur í Reykjavík dregur nafn sitt af turnlaga kalkofni sem var við enda götunnar þar sem lækurinn rann til sjávar . Kalkbrennsla hefur tíðkast um þúsundir ára og verkþekking við slíka brennslu barst til Noregs með enskum munkum á víkingatímanum. Kalkbrennslan fór fram í steinofnum sem bændur byggðu við fjall þar sem finna mátti kalkstein. Notað var þurrt timbur og var eldsneytið sett neðst og síðan ofninn fylltur með kalksteini. Kalkið var brennt við 1000 gráður. Þannig fékkst brennt kalk og ef vatni var bætt í það (leskjað) og bætt við sandi þá var það notað sem steinlím við múrun. Á árunum 1500 til 1800 var mikill útflutningur af brenndu kalki frá Noregi til Svíþjóðar og Danmerkur.

Skýringarmynd af brennslu í kalkofni.

Kalkofninn í Reykjavík og kalknám í Esjunni

breyta
 
Siemsenshús í forgrunni og kalkofninn í bakgrunni. Lækurinn sem rann um Lækjargötu til hægri

Ástæða þess að ekki voru byggð hér steinhús heldur eingöngu hlaðnir torfbæir var skortur á kalki sem steinlími en kalk var mjög dýrt í innflutningi. Kalksteinn fannst í Esjunni um 1863. Einnig fannst kalklag í Helgustaðafjalli. Sumarið 1873 voru gerðar tilraunir með að brjóta kalk upp við Mógilsá og brenna í kalkbrennsluofni hjá Rauðará. Sumarið 1876 var byrjað að byggja kalkbrennsluofn á lóð úr Arnarhólslandi við lækjarósinn (Þar sem lækurinn í Lækjargötu rann til sjávar) og var stígur frá honum niður að sjó svo auðvelt væri að koma kalksteini þangað. Kalkofninn var fullgerður árið 1877. Hann var turnlaga. Kalksteinn var brotinn í Esjunni og var hann sprengdur með púðri. Kalksteinninn var fluttur með hestum frá námunni niður að sjó og þaðan á bátum til Reykjavíkur. Vinnslan árið 1877 mun hafa verið um 630 tunnur og kostaði hver tunna 6 krónur. Kalkvinnslan stóð ekki nema nokkur ár. Flutningur frá námunni var dýr og erfiður og vatn sem haft var í kalkið reyndist blandað sjávarseltu og óhæft til kalkgerðar. Steinhús í Lækjargötu 10 er límt saman með kalki úr Esjunni.

Árin 1916-17 var gerð önnur tilraun með kalknám í Esju og var þá notað dýnamít og hrundi námugangur í einni sprengingu þar og var þá kalknámi hætt.

Heimild

breyta