Ekki rugla saman við Sultan Kösen.

Kösem Sultan (f. í kringum 1589[1] – d. 2. september 1651), einnig þekkt undir nafninu Mahpeyker Sultan,[2] var ein valdamesta kona í sögu Tyrkjaveldis.[3] Kösem Sultan komst til valda og áhrifa í stjórnmálum Tyrkjaveldis sem eftirlætishjákona (haseki sultan) Tyrkjasoldánsins Akmeðs 1., sem soldánsmóðir (valide sultan[2]) eftirmanna hans, Múraðs 4. og Íbrahíms 1. og loks sem amma Mehmeds 4. soldáns.

Kösem Sultan
كوسم سلطان‎
FæddÍ kringum 1589
Dáin2. september 1651
TrúÍslam, áður kristinn rétttrúnaður
MakiAkmeð 1.
Börn9; þ. á m. Múrað 4. og Íbrahím 1.

Kösem var meðlimur í hirð sex soldána Tyrkjaveldis: Akmeðs 1., Mústafa 1., Ósmans 2., Múraðs 4., Íbrahíms og Mehmeds 4. Eftir dauða hennar var Kösem kölluð „Valide-i Muazzama“ (hin glæsilega móðir), „Vālide-i Maḳtūle“ (hin myrta móðir) og „Vālide-i Şehīde“ (píslarvættismóðir).[4]

Æviágrip

breyta

Talið er að Kösem hafi fæðst undir nafninu Anastasía og verið dóttir grísks rétttrúnaðarprests á eyjunni Tínos, sem var þá undir yfirráðum feneyska lýðveldisins, en ekki eru til traustar heimildir um uppruna hennar. Ungri var henni rænt af tyrkneskum þrælasölum og hún seld hirð Tyrkjasoldáns, þar sem henni var gert að snúast til íslamstrúar og henni gefið nýtt nafn, Mâh-Peyker, sem merkir „mánaandlit“. Hún varð frilla soldánsins Akmeðs 1. og hlaut hjá honum nafnið Kösem, sem merkir „forystukind“.

Soldánskona

breyta

Kösem var talin greind, viljasterk og kraftmikil og komst fljótt til áhrifa innan kvennabúrsins eftir að Akmeð varð soldán árið 1603. Þegar amma Akmeðs, Safiye Sultan, var gerð útlæg árið 1604 og móðir hans, Handan Sultan, lést árið 1605, varð Kösem helsta fylgdarkona soldánsins með titlinum haseki sultan.

Árið 1612 greindi sendiherra Feneyja í Konstantínópel, Simon Contarini, frá því að Kösem væri eftirlæti soldánsins og áhrifamesta konan í hirð hans. Hann greindi jafnframt frá því að önnur kona úr kvennabúrinu (hugsanlega önnur frilla Akmeðs, Mahfiruz Hadice Sultan) hefði verið barin fyrir að þræta við Kösem.[5] Mahfiruz var síðar vísað burt úr soldánshöllinni og Kösem átti því í stirðu sambandi við son hennar með Akmeð, prinsinn Ósman. Akmeð bannaði Kösem og Ósman fljótt að umgangast hvort annað.

Eftir að Akmeð 1. lést árið 1617 tók bróðir hans, Mústafa 1., við sem soldán Tyrkjaveldis og Kösem var færð yfir í gömlu höllina þar sem fyrrum fylgdarkonur soldánanna bjuggu. Hún bjó þar áfram eftir að Mústafa var steypt af stóli árið 1618 og Ósman varð soldán, og áfram eftir að Ósman lést og Mústafa komst aftur til valda árið 1622.

Fyrri ríkisstjóratíð

breyta

Þann 10. september árið 1623 var Mústafa steypt af stóli í annað skipti og sonur Kösem, Múrað 4., var settur á valdastól sem Tyrkjasoldán. Hann var þá aðeins ellefu ára gamall. Kösem varð því soldánsmóðir með titlinum valide sultan og varð aftur tignust allra kvenna í soldánshöllinni. Hún fékk einnig að stýra ríkinu í nafni sonar síns sem ríkisstjóri, naib-i-sultanat, þar til Múrað náði fullorðinsaldri þann 18. maí árið 1632. Forverar Kösem, Nurbanu Sultan og Safiye Sultan, höfðu áður notið mikilla valda sem meðstjórnendur og ráðgjafar fullorðinna sona sinna, en Kösem var fyrsta konan sem réð formlega sem ríkisstjóri í ósmanska Tyrkjaveldinu. Kösem fundaði með ríkisstjórn soldánsdæmisins (divan) falin á bak við tjald. Stjórnartíð hennar var rósturtími í sögu ríkisins en á þessum tíma braust út stríð gegn Persum, uppreisn braust út í Anatólíu og stórvesír ríkisins var myrtur árið 1631 af janissörum.

Þann 18. maí 1632 varð sonur Kösem lögráða og tók við stjórnartaumunum af móður sinni. Kösem naut þó áfram talsverðra áhrifa og var í reynd meðstjórnandi Múraðs.

Árið 1640 lést Múrað 4. án þess að hafa getið erfingja. Við honum tók því yngri sonur Kösem, Íbrahím. Íbrahím var veikur á geði og Kösem varð því aftur óformlegur meðstjórnandi soldánsins og hélt honum frá stjórnartaumunum með því að láta frillur halda athygli hans frá stjórnmálum. Þetta fyrirkomulag stóðst ekki til langtíma og því reyndu Kösem og stórvesír soldánsins að koma Íbrahím frá völdum. Ráðabrugg þeirra misheppnaðist og leiddi til þess að stórvesírinn var líflátinn og Kösem var rekin burt frá soldánshöllinni. Þegar janissarar gerðu uppreisn gegn Íbrahím næsta ár lýsti Kösem yfir stuðningi við þá og lagði blessun sína við að Íbrahím yrði settur af og líflátinn. Íbrahím var kyrktur til dauða þann 18. ágúst 1648.

Seinni ríkisstjóratíð

breyta

Eftir dauða Íbrahíms setti Kösem sonarson sinn, son Íbrahíms, Mehmed 4. á soldánsstól aðeins sex ára gamlan. Móðir Mehmeds, Turhan Hatice, var talin of ung og óreynd til að gerast ríkisstjóri fyrir son sinn og Kösem varð því formlega ríkisstjóri í annað skipti á meðan soldáninn var ómyndugur.

Turhan reyndist metnaðarfyllri en Kösem hafði átt von á og því kom til valdabaráttu milli þeirra þar sem Kösem naut stuðnings janissara en Turhan var studd að stórvesírnum og yfirgeldingnum. Kösem naut nokkurrar alþýðuhylli, en ekki var vel liðið að janissarar nytu mikilla valda. Kösem lagði á ráðin um að steypa Mehmed af stóli áður en hann næði lögaldri og koma öðrum ólögráða sonarsyni sínum til valda sem ætti auðsveipari móður en Turhan. Þegar Turhan varð vör við áætlanirnar lagði hún á ráðin um að myrða Kösem. Þann 2. september árið 1651 var Kösem ráðin af dögum af launmorðingjum sem rifu af henni öll klæðin og kyrktu hana. Sagt er að þeir hafi notað gluggatjöldin eða lokka úr hennar eigin hári til að drepa hana. Eftir dauða Kösem tók Turhan við sem ríkisstjóri og æðsta konan í hirð soldánsins. Lík Kösem var lagt til hvílu í grafhýsi Akmeðs soldáns í Bláu moskunni í Istanbúl.[6]

Kösem var rómuð fyrir örlæti og fyrir að veita þrælum sínum frelsi eftir þriggja ára þjónustu.

Tilvísanir

breyta
  1. Baysun, M. Cavid, s.v. "Kösem Walide or Kösem Sultan" in The Encyclopaedia of Islam vol. V (1986), Brill, bls. 272.
  2. 2,0 2,1 Douglas Arthur Howard, The official History of Turkey, Greenwood Press, ISBN 0-313-30708-3, bls. 195
  3. Peirce, Leslie (1993). The Imperial Harem: Women and Sovereignty in the Ottoman Empire. Oxford University Press. bls. 105. ISBN 0-19-508677-5. „While Hurrem was the woman of the Ottoman dynasty best known in Europe, it is Kösem who is remembered by the Turks as the most powerful.“
  4. Necdet Sakaoğlu (2007). Famous Ottoman women. Avea. bls. 129.
  5. Peirce, Leslie P. (1993), The Imperial Harem: Women and Sovereignty in the Ottoman Empire, Oxford University Press, ISBN 0195086775
  6. Singh, Nagendra Kr (2000). International encyclopaedia of Islamic dynasties. Anmol Publications PVT. bls. 425. ISBN 81-261-0403-1. „Kosem Walide…Her body was taken from Topkapi to the Eski Saray and then buried in the mausoleum of her husband Ahmad I.“