Kínverskt rokk (kínverska: Yaogun yinyue, 摇滚音乐) er samheiti yfir fjölmörg afbrigði af rokktónlist frá löndum sem tala kínversku. Kínverskt rokk er undir áhrifum frá tónlist frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Japan ásamt því að taka mikið frá hefðbundinni kínverskri tónlist. Kínverskt rokk á uppruna sinn að rekja til stefnu sem kallast Norðvestanvindurinn og þá sérstaklega til tónlistarmannsins Cui Jian sem er talinn vera einn helsti brautryðjandi stefnunnar og alls rokks í Kína.

Cui Jian hefur verið kallaður faðir hins kínverska rokks.

Einkenni og helstu stefnur

breyta

Tónlistarmenn sem spila rokk í Kína hafa átt á hættu að verða gagnrýndir fyrir að spila ófrumlega tónlist út af uppruna rokksins úr vestrinu.[1] Margir tónlistarmenn af fyrstu kynslóð rokk tónlistarmanna í Kína svo sem He Yong og Again spila þess vegna tónlist sem notast við svipmyndir af Kína í textum sínum til að viðhalda ímynd sinni sem frumlegir tónlistarmenn en ekki eftirhermur.

Þessa stefnu tónlistarmanna til að reyna að hljóma kínverskir mætti túlka sem þjóðernishyggju en kínverskir tónlistarmenn tala um að þeir vilji semja tónlist um daglegt líf í Kína og jafnvel tjá hatur í garð vestrænna áhrifa á Kína. Hljómsveitin Tang Dynasty er dæmi um hljómsveit sem tekur þessa stefnu í textaskrifum en þeir spila Þungamálm og syngja ljóð frá tímum Song keisaraaldarinnar. Á tíunda áratugnum fór rokkið að taka nýjar og áður óþekktar stefnur þegar hljómsveitir eins og Sober spiluðu tónlist sem var undir áhrifum af bresku poppi sem minnir á Bítlana. Þessi tónlist hefur hlotið gagnrýni frá fyrri kynslóð rokk tónlistarmanna og kallaði sjálfur Cui Jian þessar hljómsveitirr meðal annars „menningarlausar“.[2]

Í kringum árið 1997 byrjaði að þróast ný kynslóð af kínverskum listamönnum sem lögðu ekki eins mikla áherslu á að nota kínversk hljóðfæri eða texta til að skilgreina sig og raska oft merkingu þjóðlegra texta ef þeir notast við þá til að skapa nýtt fyrirbæri. Nýja hljóðhreyfingin frá Peking varð til vegna þess að nýja kynslóðin átti mun auðveldari aðgang að vestrænni tónlist heldur en fyrsta kynslóðin í formi kassetta og geisladiska af svarta markaðinum. Listamennirnir höfðu aðgang að fleiri tegundum af tónlist og hafði það áhrif á tónlistarsköpun þeirra

Mikilvægir atburðir fyrir kínverskt rokk

breyta

Fyrstu stóru tónleikar í sögu kínverska rokksins var þegar hljómsveitin Wham! spilaði í Peking árið 1985. Þetta voru fyrstu vestrænu rokktónleikarnir sem haldnir voru í Kína og höfðu þess vegna mikil áhrif á senunna og upprennandi tónlistarmenn af því að aðgengi almennings að rokktónlist var lélegt í Kína og að sjá hljómsveit eins og Wham! spila á tónleikum þótti mikil upplifun. Hljómsveitirnar Queen og the Rolling Stones reyndu einnig að fá leyfi til að halda tónleika í Kína á þessum tíma en hvorugri tókst það. Rolling Stones fengu að koma til Kína og halda tónleika í fyrsta sinn árið 2006.[3]. Ári seinna voru haldnir tónleikar á Verkamannavellinum í Peking og spilaði Cui Jian þar frumsamda lagið sitt „Nothing To My Name“ við góðar undirtektir en þeir tónleikar voru fyrsta skref hans til frægðar.

Rokkið hélt áfram að verða vinsælla í Kína og árið 1990 voru haldnir stórir rokktónleikar í Capital Gymnasium-salnum í Peking sem er einn stærsti salur borgarinnar. Á tónleikunum spiluðu hljómsveitirnar Tang Dynasty, Cobra, ADO, Baby Brother, 1989 og Breathing og eiga um átján þúsund manns að hafa sótt tónleikana.[4]

Norðvestanvindurinn (kínverska Xibei feng)

breyta

Norðvestanvindurinn var fyrsta stefna í kínverskri tónlist sem tók við áhrifum frá rokktónlist vestanhafs. Nafnið vísar til dreifingar rokktónlistar í norðurhluta Kína. Stefnan varð til í byrjun níunda áratugarins með neðanjarðar böndum sem spiluðu kínverska rokktónlist.[5] Cui Jian var einn af þeim listamönnum og sá sem átti stærstan þátt í að stefnan náði vinsældum á landsvísu

Cui Jian

breyta

Cui Jian er söngvari, lagahöfundur, trompet- og gítarleikari frá Peking. Cui er einn af fyrstu og áhrifamestu rokktónlistarmönnum í Kína og hefur verið kallaður faðir hins kínverska rokks. Fyrsta tónlist hans er dæmigerð fyrir fyrstu ár rokksins í Kína. Tónlist Cuis er í stíl við vestræna rokktónlist að viðbættum kínverskum hljóðfærum og söng og melódísku næmi og skilur sig þannig frá hinu vestræna rokki. Cui sló fyrst í gegn með hinu umdeilda lagi „Nothing To My Name“ árið 1984 sem varð seinna óformlegt baráttulag fyrir stúdentamótmælin á Torgi hins himneska friðar árið 1989.[6][7] Cui er einn af fáum tónlistarmönnum af fyrstu kynslóð kínverskra rokkara ásamt Dou Wei úr hljómsveitinni Black Panther sem hafa verið starfandi síðan á níunda áratugnum og haldið áfram að gefa út áhugavert og fjölbreytilegt efni. [8]

Cui er mjög pólitískur tónlistarmaður og hefur samið lög svo sem „Nothing To My Name“, plöturnar „Balls Under The Red Flag“ og „Power to the Powerless“ en öll þessi verk eiga það sameiginlegt að taka kínverskt samfélag samtímans til athugunar og hafa endurómað meðal ungmenna á hverjum tíma. Cui er þekktur fyrir að spila með sína þekktu hvítu hafnaboltahúfu með rauðri stjörnu en hann hefur einnig komið fram á tónleikum með bundið fyrir augun með rauðu bandi. Út af þessu pólitíska eðli hans hafa kínversk stjórnvöld oft bannað honum að spila á ákveðnum stöðum eða reynt að stjórna lagavali hans á tónleikum, svo dæmi séu nefnd.[9][10] Árið 2012 kom út tónleikamynd í 3D með tónleikum Jians á Verkamannavöllunum í Peking.[11]

Nýja hljóðhreyfingin í Peking og Modern Sky-útgáfan

breyta

Á seinni hluta tíunda áratugarins var rokksenan í Peking orðin fjölbreytt eftir að þrjár kynslóðir tónlistarmanna höfðu mótað hana. Frá byrjun tíunda áratugarins hafa ekki einungis kínversk ríkisfyrirtæki sem og útlend útgáfufyrirtæki dreift kínverskri rokktónlist heldur einnig einkareknar útgáfur svo sem Modern Sky-útgáfan sem hefur gefið út listamenn á borð við The Fly, Sober, NO og New Pants. Þessir listamenn hafa mótað hina Nýju hljóðhreyfingu í Peking. Þessir listamenn eiga það sameiginlegt að hafa alist upp á níunda áratugnum þar sem ríkti nokkurs konar velmegun í kínversku samfélagi ólíkt fyrri tveimur kynslóðunum.

Árið 1997 stofnaði Shen Lihui, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Sober, útgáfufyrirtækið Modern Sky eftir að hafa rekið prentsmiðju um nokkurra ára skeið. Fyrsta plata útgáfunnar „It’s Great!?“ kom út 1997 og seldist vel í Kína, Taívan og Hong Kong. Síðan þá hefur útgáfan gefið út 17 plötur til viðbótar og er stærsta óháða plötuútgáfa í Kína og gefur út það sem Shen kallar „neðanjarðartónlist fyrir nýju kynslóðina“. Modern Sky-útgáfan er mikilvæg fyrir kínversku rokksenuna út af neðanjarðartónlistinni og óþekktu tónlistarmönnunum sem hún gefur út þó hún sé mjög vinsæl.[12]

Tónlistarmennarnir sem skilgreina hreyfinguna eru til dæmis The Fly sem hafa verið kallaðir „Gruggkóngar Kína“ og „fulltrúar neðanjarðar pönksenunnar í Peking“. Stíll þeirra er hraður og harður og þeim hefur verið lýst sem „skítugasta og ruslalegasta bandi Kína“. Textar þeirra draga upp myndir af einmana einstaklingum og lýsa ömurlegum stórborgarhversdagsleika.

Zuoxiao Zuzhou er söngvari, laga- og textahöfundur fyrir hljómsveitina NO sem spilar tónlist sem er undir áhrifum frá pönki, trash málmi, rokki og mjúkum blús. NO notast við hefðbundin kínversk hljóðfæri en reynir að nota þau öðruvísi heldur en fyrri kynslóðir rokkara svo að þau séu óþekkjanleg. Viðfangsefni texta hljómsveitarinnar er svipað The Fly en textar Zuzhou eru sagðir vel skrifaðir, djúpir og heiðarlegir.

New Pants eru taldir besta pönk-popp-band í Kína. Þeir spila einfalt og ferskt pönk og semja oft fyndna texta við lög sín. New Pants eru undir áhrifum frá hinum bresku Ramones.

Shen Lihui hefur gagnrýnt kínversku rokksenuna undir lok 20. aldar og lýsir henni sem „uppreisn sem hefur fengið flensu“. Með þessu meinar hann að pólítiskur boðskapur og samfélagsleg gagnrýni listamanna á borð við Ciu Jian sé úrelt og eigi sér ekki lengur stað innan senunnar. Hann lýsir Jian sem „hauslausum öskrara“ og segir að hlutirnir sem hann tali um hafi ekkert að gera með „okkur“.

Munurinn á fyrstu tvemur kynslóðum rokksins og þeirri þriðju má rekja til þess hvers konar innblástur þær sækja sér og hvað mótar tónlistina. Það var hetjuskapur og hugmyndafræði sem rokkarar fyrstu tíu áranna sóttu í en ríkjandi raunsæi sem hafði áhrif á þriðju kynslóðina.

Joyside og Wasted Orient

breyta

Pönkhljómsveitin Joyside samanstendur af Xiao Hong, Liu Hao, Guan Zheng og Brian Yuan hafa verið starfandi síðan árið 2001. Eftir þriggja ára starf gaf hljómsveitin út sína fyrstu plötu sem fékk nafnið „Drunk is Beautiful“ og fór í framhaldi af því á tónleikaferðalag um allt Kína. Heimildarmyndagerðarmaðurinn Kevin Fritz slóst með þeim í för á þessu tónleikaferðalagi og tók það upp. Árið 2006 gaf hann síðan út myndina Wasted Orient sem er heimildarmynd um hljómsveitina unnin upp úr myndum úr ferðalaginu. Myndin sýnir hljómsveitina spila fyrir orkumikla mannfjölda og slæpast um í áfengisvímu þegar þeir eru ekki að spila. Myndin gefur okkur góða sýn á listamenn sem reyna að spila pönk tónlist fyrir samfélag sem er talsvert á eftir hinum vestræna heimi á sviði tónlistarlegrar þróunar og hvernig hugmyndafræði pönksins fellur inn í hið kínverska tónlistar samfélag. Myndin hefur verið umdeild en hlotið engu að síður þrenn verðlaun og verið sýnd víða um heim.[13] [14][15]

Tilvísanir

breyta
  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. október 2011. Sótt 11. mars 2013.
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. október 2011. Sótt 11. mars 2013.
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2012. Sótt 11. mars 2013.
  4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2012. Sótt 11. mars 2013.
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2016. Sótt 11. mars 2013.
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. október 2012. Sótt 11. mars 2013.
  7. http://www.beijingscene.com/v06i011/feature.html
  8. http://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/shows/red/sonic/
  9. http://web.archive.org/web/20040625031901/
  10. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. júní 2004. Sótt 11. mars 2013.
  11. http://www.nytimes.com/2012/05/18/world/asia/echoes-of-tiananmen-on-film.html?_r=0
  12. „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 5. mars 2016. Sótt 11. mars 2013.
  13. http://www.dvdtalk.com/reviews/30203/wasted-orient-a-film-about-joyside/
  14. http://www.rockinchina.com/w/Interview_with_Joyside[óvirkur tengill]
  15. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. september 2008. Sótt 11. mars 2013.

Tengt efni

breyta