Jean-Luc Godard

franskur og svissneskur kvikmyndaleikstjóri (1930-2022)

Jean-Luc Godard (3. desember 193013. september 2022) var fransk-svissneskur kvikmyndaleikstjóri, handritshöfundur og gagnrýnandi. Hann var einn af forvígismönnum frönsku nýbylgjunnar á 7. áratugnum og varð einn af áhrifamestu kvikmyndaleikstjórum Frakka á síðari hluta 20. aldar. Verk hans einkennast af markvissum tilraunum með kvikmyndaformið, bæði frásögn, klippingar, hljóð og myndatöku. Þekktustu kvikmyndir hans eru Lafmóður (À bout de souffle) 1960, Konan er sjálfri sér lík (Une femme est une femme) 1961, Lifa sínu lífi (Vivre sa vie) 1962, Ég elskaði þig í gær (Le Mepris) 1963, Bande à part 1964, Lemmy í undraverðum ævintýrum (Alphaville) 1965, Vitlausi Pétur (Pierrot le fou) 1965, Masculin Féminin 1966 og Weekend 1967. Allar þessar myndir eru frá nýbylgjutímabilinu hans, en eftir stúdentaóeirðirnar í París 1968 urðu myndir hans pólitískari og hann gerðist hallur undir marxisma og tilvistarhyggju. Hann stofnaði róttæka Dziga Vertov-hópinn árið 1969. Eftir 1980 urðu myndir hans að sumu leyti hefðbundnari og lögðu meiri áherslu á formræna fagurfræði. Sagan af Maríu (Je vous salue, Marie) vakti miklar deilur og olli uppþotum þegar hún var sýnd í Róm árið 1985.

Jean-Luc Godard árið 1968.

Hann lést með dánaraðstoð í Sviss, þar sem hann bjó frá 1978, 91 árs gamall.

  Þetta æviágrip sem tengist kvikmyndum og Frakklandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.