Suðurlandsskjálftinn 29. maí 2008
64°1′33.24″N 20°59′8.52″V / 64.0259000°N 20.9857000°V
Þann 29. maí 2008 klukkan 15:45 riðu yfir tveir suðurlandsskjálftar samtímis sem voru af vægisstærð um 6,3 stig[1] yfir Suðurland á Íslandi. Talið er að annar skjálftinn hafi hrint hinum af stað. Hann fannst á höfuðborgarsvæðinu og alla leið til Ísafjarðar.[2] Almannavarnir lýstu yfir hæsta viðbúnaðarstigi í Selfossi, Hveragerði og nágrenni vegna hugsanlegra eftirskjálfta.[3] Ekkert mannfall varð, en nokkrar sauðkindur urðu undir byggingum og fórust og nokkrum þurfti að lóga.
Skemmdir og slys
breytaEignatjón
breytaTöluverðar skemmdir urðu á þeim svæðum sem næst lágu skjálftaupptökunum. Hlutir hrundu úr hillum á heimilum og verslunum, meðal annars næstum allar flöskur ÁTVR-verslunarinnar í Hveragerði og á Selfossi og sprungur mynduðust í húsveggjum. Töluvert var einnig um skemmdir innandyra þegar húsgögn og aðrir lausamunir köstuðust til og frá í jarðskjálftanum.[4]Af öryggisástæðum var fólki sem bjó næst upptökunum ráðlagt að sofa ekki heima hjá sér næstu nótt á eftir. Einhver slys urðu á fólki við skjálftann, en engin alvarleg. Þjóðvegur eitt skemmdist við Ingólfsfjall og skemmdir urðu á Óseyrabrú sem var lokað tímabundið á meðan skemmdirnar voru metnar.[5][6]
Slys og áhrif á fólk
breytaEkki er vitað um nein stórslys á fólki en allmargir urðu fyrir smávægilegum meiðslum þegar skjálftinn reið yfir. Vistfólk á dvalarheimilum aldraðra í Hveragerði og á Selfossi sem og sjúklingar á Sjúkrahúsinu á Selfossi voru flutt út undir bert loft og starfsfólk og fangar á Litla-Hrauni eyddu deginum úti í garði fangelsisins.[7] [8]
Slys á dýrum
breytaÚtihús hrundu á nokkrum bæjum. Á bænum Krossi í Ölfusi hrundi útihúsið með þeim afleiðingum að fé varð undir og þurfti að lóga nokkrum ám og lömbum.[9]
Skriður og grjóthrun
breytaGrjóthrun og skriðuföll urðu víða í hlíðum Ingólfsfjalls. Allt að hundrað tonna björg ultu sums staðar niður á flatlendið og rykmekkir stigu upp. Skriðurnar voru flestar smáar og ollu hvergi tiltakanlegu tjóni. Jarðvegsspilda seig fram í Sogið innan við Sogsbrúna. Fréttir bárust af smávægilegu grjóthruni í Esju og í Vestmannaeyjum.
Jörð færðist til
breytaMeð haustinu sáu menn að mælipunktar landmælinga höfðu færst úr stað, svo mæla þarf land upp á nýtt. Mælingarnar eru gerðar á vegum Landmælinga Íslands, Vegagerðarinnar, sveitarfélaganna o.fl. Meðal annars hækkaði Selfoss um 6 cm og færðist til suðausturs um 17 cm, miðað við mælipunkta í Reykjavík. Haft var eftir Páli Bjarnasyni, við Verkfræðistofu Suðurlands, að tilfærslan gæti „verið heilmikil, en ekkert sem fólk finnur beint fyrir. Þetta gerðist líka eftir skjálftana árið 2000, en þá gekk færslan sem var um 10 cm á Selfossi að hluta til baka. Í skjálftunum í vor færðist Selfoss til um 17 cm til suð-austurs og hækkaði um 6 cm, en Hveragerði færðist um 14 cm til norð-austurs en þetta mun sennilega ganga að einhverju leyti til baka eins og árið 2000.“[10]
Heimildir
breyta- ↑ „Tjónamat vegna jarðskjálfta á Suðurlandi“. www.verkis.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. október 2020. Sótt 18. mars 2019.
- ↑ „Afar öflugur jarðskjálfti“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „Hæsta viðbúnaðarstig á Suðurlandi“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „Vörur hrundu úr hillum í verslun Bónus á Selfossi“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „Óseyrarbrú skemmdist í skjálftanum“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „Tilkynningar um færð og ástand“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „All margir hafa hlotið smávægileg meiðsl“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „Fangar á Litla-Hrauni úti í garði“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „Útihús hrundu á nokkrum bæjum“. Sótt 29. maí 2008.
- ↑ „Mæla þarf land upp á nýtt eftir jarðskjálftana“. Sótt 25. september 2008.