Jamestown var bandarískt draugaskip sem strandaði hinn 26. júní 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar í Rosmhvalaneshreppi (sem síðar hét Miðneshreppur) á Suðurnesjum. Það var um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma.

Akkeri úr Jamestown fyrir framan Efra Sandgerði.

Skipið var að flytja verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum til Liverpool á Englandi þegar það lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Í óveðrinu skemmdist það mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip, Ethiopia, og settir á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak aftur á móti stjórnlaust um Norður Atlantshafið í nokkrar vikur þangað til það strandaði við Ísland.

Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr viði úr Jamestown, húsið Efra Sandgerði, heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá.

Árið 2002 fannst annað akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna Blái Herinn og því komið fyrir við húsið Efra Sandgerði. Áður hafði hitt akkerið fundist og er það fyrir utan kirkjuna í Höfnum.

Heimildir

breyta