J. Edgar Hoover
John Edgar Hoover (1. janúar 1895 – 2. maí 1972), þekktari sem J. Edgar Hoover, var fyrsti formaður bandarísku alríkislögreglunnar (FBI, eða „Federal Bureau of Investigation“). Hann var skipaður fimmti formaður bandarísku lögrannsóknarskrifstofunnar – forvera FBI – árið 1924 og var lykilmaður í stofnun alríkislögreglunnar árið 1935. Hann var formaður hennar frá stofnun hennar til dauðadags árið 1972, þá 77 ára að aldri. Hoover á heiðurinn að því að alríkislögregla Bandaríkjanna þróaðist í miklu stærri lögsögustofnun en upphaflega var áætlað og stuðlaði að margvíslegri nútímavæðingu í lögreglurannsóknum, t.d. miðstýrðum gagnagrunn fingrafara og notkun réttarvísinda á sérstökum rannsóknarstofum.
J. Edgar Hoover | |
---|---|
Formaður bandarísku alríkislögreglunnar | |
Í embætti 10. maí 1924 – 2. maí 1972 | |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 1. janúar 1895 Washington, D. C., Bandaríkjunum |
Látinn | 2. maí 1972 (77 ára) Washington, D. C., Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn[1] |
Háskóli | George Washington-háskóli |
Undirskrift |
Seint á ævi sinni og eftir dauða sinn varð Hoover afar umdeildur þegar í ljós kom að hann hafði misnotað valdastöðu sína á margvíslegan hátt á bak við tjöldin. Í ljós kom að hann hafði farið út fyrir lögsögu og hlutverk alríkislögreglunnar,[2] notað hana til að áreita pólitíska andófsmenn, safnað leyniskjölum um stjórnmálaleiðtoga[3] og safnað sönnunargögnum upp á grunaða glæpamenn með ólögmætum hætti.[4] Hoover varð því mjög valdamikill og var jafnvel í stöðu til að hóta sitjandi forsetum.[5] Samkvæmt Kenneth Ackerman, ævisöguritara Hoover, er sú hugmynd að leyniskjöl Hoover hafi komið í veg fyrir að forsetar Bandaríkjanna rækju hann ekki á rökum reist.[6] Þó er til hljóðupptaka af Richard Nixon Bandaríkjaforseta þar sem hann segist ekki þora að reka Hoover af ótta við hefnd hans.[7]
Samkvæmt Harry S. Truman Bandaríkjaforseta breytti Hoover alríkislögreglunni í leynilögreglustofnun til eigin nota. „Við viljum ekki neitt Gestapo eða leynilögreglu,“ sagði Truman. „Alríkislögreglan er á leið í þá átt. Hún er að grafa upp kynlífhneyksli og beitir hreinni og klárri fjárkúgun. J. Edgar Hoover myndi gefa á sér hægra augað til að ná völdum og allir þingmenn á fulltrúadeildinni og öldungadeildinni eru hræddir við hann.“[1]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Anthony Summers, The secret life of J Edgar Hoover, The Guardian, 1. janúar, 2012
- ↑ „J. Edgar Hoover,“ Microsoft Encarta Online Encyclopedia Geymt 1 nóvember 2009 í Wayback Machine, Microsoft Corporation, 2008, sótt 21. júlí 2017.
- ↑ "Hoover, J. Edgar", The Columbia Encyclopedia, Columbia University Press, 2007, 6. útgáfa.
- ↑ Cox, John Stuart. Theoharis, Athan G. 1988. The Boss: J. Edgar Hoover and the Great American Inquisition, Temple University Press.
- ↑ Britannica Concise Encyclopedia, „J. Edgar Hoover“
- ↑ Ackerman, Kenneth, Five myths about J. Edgar Hoover, The Washington Post, 9. nóvember 2011
- ↑ Wines, Michael, Tape Shows Nixon Feared Hoover, The New York Times, 5. júní 1991.