Jón Steinsson Bergmann

Jón Steinsson Bergmann (16964. febrúar 1719) eða Jón Bergmann Steinsson var íslenskur stúdent, einn hinna fyrstu sem lögðu stund á læknisfræði og er oft kallaður læknir þótt hann lyki ekki prófi, skáldmæltur og sagður mikill gáfu- og hæfileikamaður, en varð mjög skammlífur. Hann tók sér nafnið Bergmann þegar hann var við nám í Kaupmannahöfn eftir Setbergi á Snæfellsnesi, þar sem hann ólst upp að mestu.

Jón var fæddur í Hítarnesi á Mýrum, elsti sonur Steins Jónssonar prests þar og konu hans Valgerðar Jónsdóttur en fluttist fárra ára gamall að Setbergi, þegar faðir hans varð þar prestur. Líklega hefur Steinn kennt honum heima að mestu en árið 1712 fluttist fjölskyldan að Hólum í Hjaltadal, þar sem Steinn var þá orðinn biskup, og var Jón útskrifaður stúdent af Þorleifi Halldórssyni skólameistara vorið 1713. Um haustið varð Jón heyrari (kennari) við skólann, aðeins um 17 ára að aldri.

Vorið 1714 eignaðist Jón dóttur með hálffertugri vinnukonu á biskupssetrinu. Var þá ákveðið að senda hann til Kaupmannahafnar til náms, enda mun hann sjálfur hafa haft mikinn hug á að læra læknisfræði. Hann fór út um sumarið en mun hafa verið tepptur í Noregi mestallan veturinn og var skráður í Kaupmannahafnarháskóla 23. maí 1715. Hann mun hafa stundað læknanámið af elju framan af en lauk þó ekki prófi, enda lenti hann í óreglu og safnaði skuldum. Hann hvarf því aftur heim til Íslands vorið 1718.

Áður en Jón sigldi hafði hann að sögn beðið Guðrúnar Aradóttur, sem kölluð var sól og var sögð allra kvenna fríðust og best að sér í hannyrðum. Hún var dóttir Ara Jónssonar á Sökku í Svarfaðardal, sonar séra Jóns Arasonar í Vatnsfirði. Jón er sagður hafa fengið hryggbrot, enda átti Guðrún sér marga vonbiðla. Þegar hann kom aftur vildi hann enn giftast Guðrúnu og var hún þá til í það, enda gekk hún þá með barn annars manns, sem Jón er sagður hafa verið tilbúinn að gangast við, en biskupshjónin og þó einkum Valgerður munu hafa verið því algjörlega mótfallin og talið hneyksli. Barnið var því kennt öðrum manni en Guðrún giftist seinna manni sem kallaður er „lítilsháttar“ í heimildum.

Af þessu öllu varð Jón mjög þunglyndur, eins og hann átti raunar kyn til, og fór svo að lokum að hann tók inn eitur og dó af því í kjallarabaðstofunni á Hólum 4. febrúar 1719.

Jón var sagður mjög efnilegur læknir og gengu ýmsar sögur um lækningaafrek hans eftir lát hans, sumar allýkjukenndar. Meðal annars var sagt að hann hefði grætt bóg af hvítum sauð á svartan. Hann var vel skáldmæltur og hafa fáein kvæði og vísur eftir hann varðveist. Gunnar Pálsson taldi að hann hafi ort vísuna Hani, krummi, hundur, svín, en hún hefur raunar einnig verið eignuð öðrum. Hann lét líka eftir sig gamansamar langlokur í Skraparotspredikunarstíl, Æfisögu Polycarpusar og (líklega) sögu af Memnbranaceo hertoga. Málverk sem talið er vera af Jóni er í Þjóðminjasafni Íslands.

Sonarsonur Sigríðar, laundóttur Jóns, var Jón Árnason þjóðsagnasafnari.

Heimildir breyta

  • „„Jón Steinsson Bergmann". Blanda, 7. hefti, 1924“.
  • „„Græddi bóg af hvítum sauð á svartan". Tíminn, 1. október 1988“.