Jón Kr. Gunnarsson
íslenskur skipstjóri, blaðamaður, ritstjóri og forstöðumaður Sædýrasafnsins í Hafnarfirði
Jón Kristinn Gunnarsson (1. október 1929 – 26. maí 2000) var íslenskur skipstjóri, blaðamaður, ritstjóri og forstöðumaður Sædýrasafnsins í Hafnarfirði. Hann endurreisti tímaritið Spegilinn 1965 ásamt fleirum og ritstýrði því til 1968. Þá átti hann frumkvæði að stofnun Sædýrasafnsins 1969 og veitti því forstöðu þar til það var lagt niður árið 1987. Á þeim tíma fékkst hann meðal annars við að fanga háhyrninga til að selja til sædýrasafna víða um heim og fékk safnið af því tekjur. Hann stofnaði líka bókaforlagið Rauðskinnu.