Italo Svevo
Italo Svevo (Aron Hector Schmitz; 19. desember 1861 – 13. september 1928) var ítalskur rithöfundur og athafnamaður. Hann fæddist í Trieste sem þá tilheyrði Austurrísk-ungverska keisaradæminu (til 1920). Hann var af vel stæðri gyðingafjölskyldu sem rak uppruna sinn til Ungverjalands. Hann hlaut menntun í þýsku og viðskiptafræði. Fyrirtæki föður hans varð gjaldþrota 1880 svo Schmitz hóf störf við banka og tók að skrifa í blöð undir dulnefni. 1892 gaf hann út sína fyrstu skáldsögu Una vita („Líf“) undir dulnefninu Italo Svevo. 1898 kom síðan út Senilità („Elliglöp“). Hvorug skáldsagan vakti nokkra athygli.
1907 hóf hann enskunám við Berlitz-enskuskóla í Trieste. Þar kynntist hann James Joyce sem kenndi við skólann og hvatti hann til að halda áfram að skrifa. 1923 gaf hann út La coscienza di Zeno („Samviska Zenos“) sem eru æviminningar aðalpersónunnar og endurspegla að stórum hluta ævi Svevos sjálfs. Þessi skáldsaga vakti ekki meiri athygli en þær fyrri þar til Joyce kynnti hana fyrir frönskum gagnrýnendum tveimur árum síðar. Um leið hóf ítalska skáldið Eugenio Montale að hæla bókinni opinberlega. Við þetta varð Svevo að bókmenntastjörnu. Hann náði þó ekki að ljúka við fjórðu skáldsögu sína, Il vecchione o Le confessioni del vegliardo („Gamlinginn eða Játningar öldungsins“) þar sem hann lést eftir bílslys í skíðabænum Bormio árið 1928.