Inúítar

(Endurbeint frá Inuítar)

Inúítar (úr inúítamálum Inuit „fólkið“, eintala: Inuk) eru þjóðflokkar frumbyggja Norður-Ameríku sem búa á Norðurslóðum, nánar tiltekið á Grænlandi, í Kanada og í Alaska. Áður fyrr var orðið eskimói oft notað um alla inúíta.

Dreifing inúítamála

Þjóðflokkar þessir búa á svæðinu allt frá Tjúkta-héraði í Síberíu til Grænlands. Þrátt fyrir að þessir þjóðflokkar hafi búið dreift á þessu víðáttumikla svæði hafa menning þeirra og lifnaðarhættir verið nánast þeir sömu langt fram á 20. öld. Þeir hafa lifað á fiskveiðum og veiðum land- og sjávardýra. Inúítar eru samheiti yfir fleiri þjóðflokka, Inuit og Inuvialut í Kanada, Kalaallit á Grænlandi, Inupiaq og Yupik í Alaska og Yupik í Rússlandi (Síberíu). Í raun eru Yupik ekki Inúítar þar sem þeir eru ekki afkomendur þess fólks sem kennt er við Thule og tala annað tungumál (þó náskylt), þeir vilja þess vegna heldur kalla sig Yupik eða Eskimóa í stað Inúíta.

Kanadísku Inúítarnir búa aðallega í Nunavut (sjálfstjórnarsvæði í Kanada), Nunavik (norðurhluti Quebec) og í NunatsiavutLabrador). Inuvialuit búa aðallega við fitjar Mackenzie fljótsins og á Banks-eyju og hluta af Viktoríu-eyju í Nor'vesturhéruðunum. Inúítar bjuggu áður í Yukon-héraði en nú búa engir þeirra þar. Inupiaq búa á norðurströnd Alaska, en Yupik búa á vesturströnd Alaska og allra austasta hluta Tjúkta-héraðs í Rússlandi.

Eskimóar

breyta

Heimskautaþjóðir Norður-Ameríku og Grænlands hafa á Evrópumálum verið kallaðar Eskimóar frá því að hvítir menn fóru að nema þar land á 16. öld. Norrænir menn á Grænlandi nefndu þá skrælingja. Orðið eskimói er af óljósum uppruna og eru ýmsar kenningar til um það. Sú algengasta er að uppruni orðsins sé úr Innu eða einhverju öðru Indíánamáli og þýði „sá sem étur hrátt kjöt“. Það er þó heldur ósennilegt þar sem allar Indíánaþjóðir í nágrenni Inúíta átu hrátt kjöt áður fyrr. Engu að síður álíta margir Inúítar orðið eskimói vera niðurlægjandi og vilja heldur láta tala um sig sem Inúíta. Það var ein af samþykktum ráðstefnu fulltrúa heimskautaþjóða 1977 þegar Inuit Circumpolar Conference (ICC), fyrstu samtök heimskautaþjóða, voru stofnuð.

Heimskautalíf að fornu

breyta

Af hefð voru Inúítar veiðimenn sem lifðu af því sem heimskautasvæðið gaf af sér og höfðu sjaldan fasta búsetu heldur fluttu allt eftir því hvar veiði var að vænta. Þeir veiddu fisk, fugla, hvali, seli, rostunga, hreindýr eða sauðnaut, allt eftir því hvað hægt var að finna á hverju svæði. Lítið er um ætilegar jurtir í löndum þeirra en Inúítar notuðu sér ýmis grös og þang.

 
Selaveiðimaður á kajaka á Grænlandi 2006

Sjávardýr (að hvölum og rostungum undanteknum) veiddu þeir iðulega úr eins manns selskinnsbátum sem nefndir voru qajait í fleirtölu (eintala qajaq). Þessir bátar létu einstaklega vel að stjórn og var meðal annars mjög einfalt að snúa þeim við þó svo að þeim hvolfdi alveg. Af þessari bátagerð Inúíta eru kajakar Evrópumanna komnir.

Inúítar notuðu einnig stærri báta sem kallaðir voru umiaq, konubátar. Þetta voru opnir bátar úr skinni og hvalbeini og voru notaðir til flutninga á fólki, vörum og hundum. Sérstök gerð umiaq var notuð við hval- og rostungaveiðar. Að vetrarlagi voru selir veiddir við öndunargöt á ísnum sem nefnd voru aglu. Veiðimenn biðu við vökina þangað til selurinn kom upp til að anda og skutluðu hann svo með sérstöku spjóti.

Inúítar ferðuðust yfir ís og snjó með hundasleðum (fleirtala qamutiit, eintala qamutiq). Sérstakt hundakyn var notað til að draga sleðana. Hundarnir voru bundnir fyrir sleðann, sem gerður var úr beinum og skinnum, þannig að þeir mynduðu blævæng (ekki bundnir saman í eina röð). Á suðlægari búsetusvæðum voru meiðar sleðanna stundum smíðaðir úr viði. Á landi eða í grennd við land voru ýmis kennileiti oftast notuð til að rata rétta leið en Inúítar byggðu einnig vörður (inukshuk), sumar allstórar, til að vísa sér veg. Þeir rötuðu einnig ótrúlega vel um hafís og beittu þar þekkingu sinni á stjörnuhimni og birtustigi.

 
Inúíta fjölskylda (1917)

Einstaka sinnum söfnuðust Inúítar saman í stærri hópa, einkum að sumarlagi. En oftast lifðu þeir í fjölskylduhópum, 10 til 30 manna, sem fluttu frá einum stað til annars allt eftir árstíð og veiðihorfum. Oftast settust fjölskylduhóparnir um kyrrt yfir veturinn og byggðu sér þá hús sem kölluð voru Qarmaq. Þetta voru híbýli ekki ósvipuð einfaldri gerð íslenskra torfbæja, hlaðin úr grjóti, mold, torfi, viði og hvalbeinum. Snjóhús (igloo) voru einungis notuð á ferðalögum og ekki til lengri íveru. Á sumrin bjuggu Inúítar oftast í tjöldum sem gerð voru úr stoðum sem oftast voru úr hvalbeini og sveipaðar húðum af ýmsum dýrategundum. Til matargerðar notuðu Inúítar aðallega svonefnda Qulliq-lampa og hituðu upp með því að brenna selspik.

Saga Inúíta

breyta

Elstu minjar um svonefnda „steinaldar-eskimóa“ eru frá því um það bil 3000 f.Kr. á svæðinu beggja vegna Beringssunds, þ.e. austast í Síberíu og í Alaska. Fyrstu Indíánarnir komu frá Asíu til Ameríku yfir Beringssund um 28.000 f.Kr. Um 2500 f.Kr, þegar loftslag var talsvert hlýrra en nú á þessum slóðum, fluttust hópar þessara „steinaldar-eskimóa“ austur á bóginnr og settust að frá norðurströnd Alaska til Grænlands. Á næstu öldum þróaðist þar svonefnd „frum-Dorset menning“ (sem skiptist í „Independence I og II“ og „Saqqaq-menninguna“). Frá 500 f.Kr fram að 1000 e.Kr – var síðan tími „Dorset-menningarinnar“.

Samhliða þróaðist önnur menning sem nefnd hefur verið „Nýeskimóa-menning“ á vesturströnd Alaska frá 2000 f.Kr fram til 1000 e.Kr. Um árið 1000 var mikið hlýindatímabil á norðurhveli. Þá tóku forfeður nútíma Inúíta sig upp og fluttust austur eftir norðurströnd Alaska, heimskautasvæðum Kanada og allt til Grænlands. Þetta menningarskeið hefur verið nefnt eftir Thule á Grænlandi, en þar fundu fornleifafræðingar fyrstu staðfestu minjar um það. Alls staðar þar sem Thule-Inúítar settust að hurfu fyrirrennarar þeirra, Dorset-fólkið, af sjónarsviðinu. Allt bendir til þess að Dorset-fólkið hafi verið mun verr í stakk búið til lífsbaráttunnar en Thule-Inúítarnir. Þá fyrrnefndu skorti þekkingu á bátagerð, boganotkun og þeir héldu ekki heldur hunda. Thule-Inúítar höfðu þess vegna tæknilega yfirburði, þeir voru meðal annars slungnir í að veiða stórhveli með skutlum úr umiaq-bátum sínum. Hins vegar er með öllu ókunnugt hvernig samskiptum Thule-Inúíta og Dorset-fólks var háttað, hvort þessir hópar sameinuðust eða bárust á banaspjót.

 
Matseld Inúítakonu í Alaska, 1916

Menning Inúíta var algjörlega löguð að staðháttum heimskautasvæðanna og gerði þá mjög hæfa til að lifa við þær aðstæður sem þau höfður upp á að bjóða. Hins vegar höfðu þeir litla sem enga möguleika að aðlagast suðlægara loftslagi enda bjuggu þeir nær eingöngu norðan við skógarmörk. Samskipti þeirra við Indíána sunnan þessara marka voru oftast fjandsamleg en stöku sinnum virðist þó vöruskiptaverslun hafa átt sér stað milli Indíána og Inúíta.

Á 13. og 14 öld námu Inúítar land á Norður-Grænlandi og settust smám saman að á allri strandlengjunni. Óvíst er hvenær norrænir menn hittu þá fyrst fyrir enginn vafi er á því að þeir skrælingjar sem Ívar Bárðarson talar um að hafi sest að í Vestribyggð um miðja 14. öld voru Thule-Inúítar. Um 1500 voru þeir svo einir eftir í landinu.

Landnám Evrópumanna og önnur samskipti við Inúíta í Kanada, Alaska, Síberíu og á Grænlandi frá 16. öld og fram á vora daga hafa gjörbreytt lifnaðarháttum Inúíta. Flestir þeirra hafa lagt niður forna lifnaðarhætti og eru nú hluti af nútímasamfélagi. Enn eru þó veiðar, bæði á sel, hreindýrum og fiski mikilvægar og á mörgum stöðum mikilvægustu atvinnuvegir Inúítasamfélaganna. Veiðar á hval og rostungum eru nánast aflagðar enda lítið eftir af hinum síðarnefndu (nefna má að á vesturströnd Grænlands veiddust árlega um 20 000 rostungar á fyrstu áratugum 20. aldar en árið 2007 er kvótaheimild til veiða á sama svæði 67 dýr).

Nútíma Inúítar

breyta
 
Selveiðimaður hjá Cape Dorset (1999)

Eftir að hafa nokkrar síðustu aldir verið útkjálkaþjóðir sem lítið hafa haft um eigin mál að segja býr stór hluti Inúíta nú í sjálfstjórnarsamfélögum. Er þar annars vegar Grænland með um 50 000 íbúa, sem fékk heimastjórn 1979 og hins vegar Nunavut með um 30 000 íbúa í Norðaustur-Kanada sem fékk heimastjórn 1999.

Heimildir

breyta
  • Jean Briggs. Never in Anger. ISBN 0-674-60828-3
  • Ernest S. Burch Jr. The Eskimos
  • Hans Ruesch. Top Of The World. ISBN 950-637-164-4
  • Bryan & Cherry Alexander: Eskimo – Jäger des hohen Nordens. Belser, Stuttgart 1993. ISBN 3-7630-2210-4
  • Ernest Burch Jr., Werner Forman: The Eskimos. University of Oklahoma Press, Norman 1988, Macdonald/Orbis, London 1988. ISBN 0-8061-2126-2
  • Richard Harrington: The Inuit – Life as it was. Hurtig, Edmonton 1981. ISBN 0-88830-205-3

Ítarefni

breyta